Fjöldi for­eldra og ungra barna komu saman í ráð­húsi Reykja­víkur í dag, fyrir fund borgar­ráðs, til að mót­mæla úr­ræða­leysi í dag­vistunar­málum í borginni en for­eldrarnir bíða þess að fá pláss á leik­skóla fyrir börn sín.

Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri sagði á fundinum að beðið væri gagna frá skóla- og frí­stunda­sviði borgarinnar um inn­ritun barna og að þær væru ekki væntan­legar fyrr en á næsta fundi. Helgi Gríms­son, sviðs­stjóri sviðsins, var þó kallaður á fund borgar­ráðs í dag til að fara yfir stöðu mála.

„Þessi vika hefur farið í það að afla upp­lýsinga frá sjálf­stætt starfandi leik­skólum, sem eru ekki hluti af inn­ritunar­kerfi borgarinnar, um þau börn sem mögu­lega eru komin inn þar og eru á bið­lista hjá okkur,“ segir Dagur spurður um það hvað það er ná­kvæm­lega sem þau muni vita betur í næstu viku og hvernig það muni hjálpa þeim for­eldrum sem voru mætt á mót­mælin.

„Elstu börnin eru með fyrsta for­gang og þetta hefur á­hrif á það hvort að ein­stakir skólar eru til­búnir að taka fleiri inn af bið­listunum og það hefur á­hrif á það hversu neðar­lega við komumst í aldri,“ segir Dagur og að í næstu viku muni borgar­ráð einnig fá upp­lýsingar um stig fram­kvæmda í borginni en víða er unnið að því að stækka leik­skóla eða laga raka­skemmdir eða myglu.

Reyna að brúa bilið eins hratt og þau geta

„Við erum að byggja við víða og leigja nýtt hús­næði sem er verið að breyta og taka í notkun hjá einka­aðilum. Auk þess sem við erum að taka í notkun færan­lega leik­skóla sem við bættum inn í á­ætlunina þegar við sáum að börnum fjölgaði um­fram spár. Við erum þannig að gera býsna margt og það er mörg horn að líta til þess að reyna að brúa bilið á milli fæðingar­or­lofs og leik­skóla eins hratt og við getum,“ segir Dagur.

Hann segir að annað sem hafi á­hrif eru við­halds­fram­kvæmdir og að þess vegna hafi sem dæmi þurft að færa nokkra leik­skóla.

„Þær ganga betur ef við getum fundið alveg nýtt hús­næði heldur en ef við erum að færa til innan leik­skólans. En þetta er hluti af vanda­málinu. Það hafa á­skoranir fylgt því og eins erum við að endur­gera gamla Safa­mýra­skólann, en út­boðið var kært og það stoppar það. Það er því eitt og annað sem kemur upp á í risa­stóru verk­efni en í megin­at­riðum er það að ganga eftir. En eins og mætingin hér sýnir þá eru ekki allir komnir með skýr svör eða skýrar tíma­setningar og við vonumst til þess að geta gefið það efir viku.“

Heldurðu að þið náið niður í 12 mánaða, í haust?

„Skóla- og frí­stunda­svið flaggaði það í vor að á­ætlanir um að septem­ber­börn næðu inn septem­ber myndu lík­lega ekki ganga eftir vegna þess að börnum á bið­lista hefði fjölgað um­fram spár og ég held að það hafi ekki breyst,“ segir Dagur.

Hann segir að vonir standi til þess að hægt verði að ljúka verk­efninu Brúum bilið á fimm árum í stað sex og að ljúka því á næsta ári. Hann segir að búið sé að setja fjár­magn til hliðar og að það standi til að ráða fólk. Nú þegar sé farið að aug­lýsa störf í leik­skólum.

„En við sjáum að á­ætlanir fólks fylgdu þessum á­ætlunum og þessum metnaðar­fullu mark­miðum. Fólk sér skólana rísa og spyr spurninga ef ein­hver ein­faldur lóða­fram­kvæmdur þýðir að það er ekki hægt að taka við börnum og þessar spurningar eru vel skiljan­legar,“ segir Dagur.

Foreldrar komast margir ekki til vinnu vegna þess að þau fá ekki pláss fyrir börn sín.
Mynd/Lovísa Arnardóttir

Slaka ekki á kröfum

Þú nefnir mönnun, er verið að slaka á í kröfum til að ná að manna?

„Við slökum auð­vitað aldrei á í kröfum en það er ekki allt starfs­fólk sem ráðið er á leik­skóla leik­skóla­kennarar og hefur ekki verið árum saman,“ segir Dagur en að leik­skóla­menntuðu starfs­fólki sé að fjölga og að einnig hafi þeim fjölgað sem starfa innan leik­skólanna og eru með aðra há­skóla­menntun á upp­eldis­sviði.

„En því er ekki að leyna að á þessum árs­tíma erum við að reyna að höfða til ungs fólks sem var kannski að klára mennta­skóla og ætlar að hugsa sig um næsta árið og viljum gjarnan að þau prófi að vinna á leik­skóla,“ segir Dagur og að það hafi mark­visst verið unnið að því að bæta að­stöðu og starfs­að­stæður.