Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir að fréttaflutningur á vef Hringbrautar um miða sem hann hlaut sem gjöf á tónleikahátíðina Secret Solstice sé villandi. Þar var því haldið fram að Dagur hefði þegið miða að andvirði hálfrar milljónar króna. Hann segir það ekki rétt, hann hafi fengið gefinst miða sem hafi verið ætlaðir listamönnum, og ekki verið til sölu. Það staðfesta forsvarsmenn hátíðarinnar í tilkynningu.
„Ég er nú ýmsu vanur en verð þó að segja að þetta finnst mér óvenju villandi og röng framsetning þar sem viljandi er verið að gera hluti tortryggilega,“ segir Dagur í Facebook færslu sem hann birti seint í gær.
Hann útskýrir í færslunni að hann hafi verið á ættarmóti sömu helgi og hátíðin fór fram og hafi því ekki búist við því að komast. Hann hafi svo verið kominn aftur í bæinn síðdegis á sunnudegi og hafi þá ákveðið að líta við á hátíðina síðasta kvöld hennar.
„Ekki síst þar sem margir höfðu lýst áhyggjum af framkvæmdinni áður en hún var haldin,“ segir Dagur.
Hann segir frá því að aðstoðarmaður hans hafi heyrt í skipuleggjendum hátíðarinnar sem hafi hitt hann við inngang svæðisins. Þeir hafi fengið listamanna-armbönd, sem hafi átti að tryggja þeim aðgang að öllu tónleikasvæðinu, einnig öllu baksviðs svæði.
Skipulag hafi verið metnaðarfullt og öryggisgæsla á verði
Dagur segir að framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Víkingur Heiðar Arnórsson, hafi að því loknu leitt hann um svæðið og sýnt honum skipulag þess. Hann segir það hafa verið mjög metnaðarfullt og að öryggisgæsla hafi athugað armband hans þegar hann fór á milli ólíkra svæða.
„Listamanna-armböndin veittu þennan aðgang - en voru ekki til sölu. Þau var alls ekki hægt að kaupa. Hvað þá fyrir hálfa milljón. Ég var ánægður að hafa farið þótt aðeins hafi rignt. Fulltrúum lögreglu, slökkviliðs og félagsmiðstöðvastarfsfólki sem ég rakst á á röltinu bar saman um að hátíðin hefði farið vel fram og verið til fyrirmyndar,“ segir Dagur í færslu sinni.
Hann spyr svo hvaða skrifin á vef Hringbrautar koma og segir að í þeim tilgangi að gera heimsókn hans á hátíðina tortryggilega leggi Hringbraut listamanna-armbönd að jöfnu við svokallaða Óðinsmiða sem voru til sölu á hátíðina. Það eru dýrustu miðar sem hægt er að kaupa á hátíðina. Samkvæmt forsvarsmönnum Secret Solstice gera slíkir gestum kleift að borða og drekka frítt allan þann tíma sem hátíðin stendur auk þess að hafa aðgang að VIP svæðum.
Dagur segir fréttaflutning Hringbrautar „gróflega villandi og rangan“ og „út í hött“
„Að blanda þessum listamannaarmböndum sem notuð voru til að komst um svæðið eitt kvöld saman við allt aðra og dýrustu miðana á þriggja daga hátíð er ekki bara hæpið heldur út í hött. Mér finnst sjálfsagt að gera ríkar kröfur til stjórnmálamanna en það hlýtur líka að vera hægt að gera þá lágmarkskröfu að rétt sé farið með í skrifum um þeirra störf, rétt eins og í allri annarri umræðu,“ segir Dagur að lokum.
Í tilkynningu frá Secret Solstice um málið kemur fram að þau harmi fréttaflutning Secret Solstice í tengslum við aðgöngumiða borgarstjóra.
„Allir kjörnir fulltrúar geta fengið aðgöngumiða á hátíðina samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg í þeim tilgangi að uppfylla eftirlitsskyldu sína. Borgarstjóri sótti hátíðina á sunnudagskvöldið og vildu forsvarsmenn hátíðarinnar gjarnan veita honum sérstakan aðgang að öllum svæðum hátíðarinnar og fékk hann því svokallaða Artist Gold passa sem eru ekki til almennrar sölu,“ segir í tilkynningunni.
Þar er svo gagnrýnt, eins og Dagur gerir í sinni færslu, að miðarnir séu lagðir að jöfnu við Óðinsmiðana.
„Allt kom þetta afar skýrt fram í samtali forsvarsmanns hátíðarinnar við blaðamann Hringbrautar sem kaus að túlka miðana með þessum hætti. Forsvarsmenn Secret Solstice harma slíkan fréttaflutning sem á engan hátt mun geta skyggt á ótrúlega vel heppnaða hátíð við sumarsólstöður í Laugardalnum,“ segir að lokum í tilkynningu Secret Solstice.