Dagur B. Eggerts­son, odd­viti Sam­fylkingarinnar í Reykja­vík, segir að Sam­fylkingin, Píratar og Við­reisn ætli að fylgjast að í við­ræðum næstu daga um myndun nýs meiri­hluta. Þetta kom fram í máli Dags í Morgunút­varpinu á Rás 2 í morgun.

Eins og kunnugt er féll meiri­hlutinn í borginni í kosningunum á laugar­dag og bendir allt til þess að Fram­sóknar­flokkurinn fari í meiri­hluta, annað hvort með Sam­fylkingu eða Sjálf­stæðis­flokki á­samt öðrum flokkum.

Dagur sagði að odd­vitar frá­farandi meiri­hluta í borginni hefðu hist í gær til að stilla saman strengi sína.

„Við höfðum talað um það fyrir kosningar að gera það sama hvernig færi. Það að vísu sagði Líf Magneu­dóttir okkar frá því að VG myndi ekki taka þátt í sam­starfi og það lægi fyrir eftir fundar­höld þar. Það út af fyrir sig fækkar val­kostunum en engu að síður höfum við Dóra Björt (odd­viti Pírata) og Þór­dís Lóa (odd­viti Við­reisnar) talað um að fylgjast að í við­ræðum næstu daga,“ sagði Dagur.

Einar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sóknar­flokksins, sagði í þættinum að Fram­sóknar­flokkurinn myndi ekki setja eitt­hvað eitt á­kveðið mál á oddinn í meiri­huta­við­ræðum. Benti hann á að bar­áttu­mál flokksins væru meðal annars hús­næðis­mál, vel­ferðar­mál, sam­göngu­mál og mál­efni barna­fjöl­skyldna. Þá úti­lokaði Einar ekki sam­starf við neinn flokk.

„Við erum til­búin í sam­tal við alla flokka. Það er mikil­vægt að sýna kjós­endum þá virðingu að ræða við alla flokka. Ég ætla að heyra í sem flestum odd­vitum, þetta verður sam­starfs­fólk mitt og ég er nýr í þessum borgar­málum og nálgast þetta verk­efni af á­kveðinni ein­lægni,“ sagði Einar og bætti við að allt snerist þetta um mál­efnin. Við­ræður væru ekki hafnar og gær­dagurinn hafi farið í að heyra í sínu fólki innan Fram­sóknar­flokksins.

Hildur Björns­dóttir, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins, sagðist eins og Einar ekki úti­loka sam­starf við neinn flokk. Sagði hún að Sjálf­stæðis­flokkur gæti allt eins hugsað sér sam­starf með Við­reisn, Flokki fólksins og Fram­sóknar­flokki.