Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur tekið ákvörðun um að bjóða sig ekki fram til formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í október þegar kosið verður um arftaka Loga Einarssonar. Þetta staðfestir Dagur.

Ákvörðunar Dags hefur verið beðið með eftirvæntingu mánuðum saman eftir að Logi upplýsti í helgarviðtali í Fréttablaðinu í vor að hann hygðist axla ábyrgð á slæ­legu gengi flokks­ins í síð­ustu alþingis­kosn­ing­um.

„Ég hef auðvitað skynjað mikinn stuðning. Fólk hefur kallað eftir nýrri ríkisstjórn sem yrði mynduð frá vinstri yfir á miðjuna svipað og í Reykjavík. En ég er að hefja nýtt kjörtímabil í borginni og á ekki sæti á þingi. Þess vegna var langsótt að ég byði mig fram til formennsku í flokknum,“ segir Dagur.

Spurður hvort það sé útilokað að hann bjóði sig fram til formanns, svarar Dagur:

„Já. Mitt hlutverk er frekar nú að styðja við þá sem veljast til forystu. Ég held að það skipti mjög miklu máli að Samfylkingin sæki fyrri styrk sinn.“

Kristrún Frostadóttir þingmaður er sögð gera það upp við sig á næstu dögum hvort hún býður sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Dagur situr sem borgarstjóri uns Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, tekur við.

„Það hef ég aldrei útilokað en hef þó ekki sérstaklega stefnt að því. Hugur minn og hjarta hefur verið í borginni ansi lengi. Ég hvorki útiloka það né er ég með áætlanir um slíkt langt fram í tímann,“ svarar Dagur spurður hvort hann hyggist bjóða sig fram til Alþingis fyrir næsta kjörtímabil. Mikilvægt sé að Samfylkingin komist í ríkisstjórn. „Það vantar meiri félagshyggju og meiri klassíska norræna jafnaðarstefnu inn í stjórn íslenska ríkisins.“