Innlent

Dagur rak Eyþór á dyr í Höfða

Utanríkisráðherra kveðst hafa boðið nýjum oddvita Sjálfstæðismanna í borginni á fundinn.

Mótframbjóðendurnir Eyþór Arnalds og Dagur B. Eggertsson.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, vísaði Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni, á dyr þegar borgarstjórn hitti þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna í Höfða í gær.

Kjördæmavika er í þinginu og því eru þingmenn á ferð og flugi um kjördæmi sín. Af því tilefni boðaði borgarstjórn Reykjavíkur þingmenn borgarinnar á fund til sín í Höfða. Var þingmönnum boðið sæti við langborð í Höfða og þegar Dagur ætlaði að setjast niður sá hann borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins óvænt á fundinum og ætlaði hann sér sætis gegnt núverandi borgarstjóra.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sagði Dagur við þennan nýja mótherja sinn að hér væri á ferðinni fundur borgarstjórnar með þingmönnum. Þar sem hann væri hvorki þingmaður né í borgarstjórn ætti hann ekki heima á þessum fundi þar sem þetta væri ekki frambjóðendafundur.

Guðlaugur Þór Þórðarson bauð Eyþóri á fundinn. Fréttablaðið/Ernir

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og fyrsti þingmaður annars Reykjavíkurkjördæmisins, sagði þá borgarstjóra að hann hefði boðið Eyþóri til fundarins. Guðlaugur og Eyþór eru miklir lagsmenn innan Sjálfstæðisflokksins þar sem talað er um samstarf þeirra sem náið og traust.

„Guðlaugur Þór utanríkisráðherra biður mig að mæta með sér klukkan hálf þrjú að hitta borgarstjórn. Ég er nýr oddviti í þeim flokki sem er stærstur og þigg það strax. Ég tel það gott fyrir Reykvíkinga að þingmenn fái skýra og sterka rödd sem segir ríkinu að gleyma okkur ekki, um það snýst samtalið,“ segir Eyþór í samtali við Fréttablaðið. 

Dagur lét sér hins vegar ekki segjast og benti Eyþóri vinsamlegast á dyr með þeim orðum að hér væri á ferð fundur með þingmönnum. Þegar fundur hófst var hið nýja borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins hvergi sjáanlegt.

„En þá bar svo við að Dagur vildi ekki þiggja þessa aðstoð og sagði þetta ekki frambjóðendafund. Þannig að ég kvaddi bara kaffiboðið og sagði við hann að það væri fínt þá að halda frambjóðendafund sem fyrst og að hann skyldi haldinn í Höfða,“ bætir Eyþór við.

Þingmenn sem Fréttablaðið hefur heyrt í staðfesta þessa frásögn en segja fundinn hafa verið afar góðan og mælt hafi verið til þess að slíkir fundir verði haldnir oftar á komandi misserum. Um tveir þriðju landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu og því eðlilegt að þingmenn og sveitarstjórnir á svæðinu hafi með sér ríkt samráð um hag íbúa á svæðinu.

„Þetta er mjög óvenjulegt því alls staðar sem ég kem þá taka forstöðumenn stofnana vel á móti mér,“ segir Eyþór. „Þetta er í fyrsta skipti sem embættismaður borgarinnar hefur ekki viljað ræða við mig um hvað er hægt að gera betur við samfélagið.“

Ekki náðist í borgarstjóra við vinnslu fréttarinnar. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lögreglumál

Sérsveitin send á byssumenn í Hvalfirði

Heilbrigðismál

Jáeindaskanni brátt tekinn í notkun á LSH

Neytendur

Töluverður verðmunur á vinsælum skólatöskum barna

Auglýsing

Nýjast

Djakarta sekkur í hafið á methraða

Áhyggjur af deilunni við Sádi-Arabíu

Tókst að reka grind­hvalina úr friðinum

Henti sér út í til að hjálpa hvalnum

Sema búin að kæra: „Málið er nú komið í réttan far­veg“

Stór sprunga hefur myndast í Fagra­dals­fjalli

Auglýsing