Gert er ráð fyrir að Dagur B Eggertsson borgarstjóri og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, verði nokkuð óumdeild í efstu tveimur sætum á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.

Dagur tilkynnti í gær að hann yrði áfram í framboði og búist er við tilkynningu frá Heiðu Björgu um framboð í annað sætið.

Þótt fámennt verði í baráttu um þessi efstu sæti má að sama skapi gera ráð fyrir að nokkur fjöldi fólks gefi kost á sér í þriðja og fjórða sæti á lista flokksins en flokkurinn fékk sjö menn kjörna í síðustu kosningum.

Borgarfulltrúinn Hjálmar Sveinsson hefur þegar lýst yfir framboði í þriðja sæti og búist er einnig við tilkynningu frá Skúla Helgasyni í sama sæti. Nokkrir nýliðar eru einnig taldir líklegir til að falast eftir sæti ofarlega á lista, þeirra á meðal Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

Konur í hópi borgarfulltrúa flokksins eru einnig líklegar til að gefa flestar kost á sér á ný, fyrir utan Kristínu Soffíu Jónsdóttur. Meðal nýrra kvenna sem líklegar þykja til framboðs ofarlega á lista er Guðný Maja Riba grunnskólakennari.