Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, oddviti Samfylkingarinnar, hittast á fundi síðar í dag. Þar munu þeir þreifa á málefnum og kanna hvort grundvöllur er fyrir nýjum fundi í félagi með fleiri flokkum. Dagur B. Eggertsson staðfestir fundinn í samtali við Fréttablaðið.

Einar sem getur horft bæði til hægri og vinstri útilokar ekki heldur meirihlutasamstarf með Hildi Björnsdóttur oddvita sjálfstæðismanna.

Með fulltrúa Flokks fólksins og fulltrúa Viðreisnar gætu sjálfstæðismmenn og framsóknarmenn myndað meirihluta, 12 gegn 11.

Dagur vildi ekki gefa upp hvar þeir Einar muni hittast í dag Hann sagði að engin færi gæfust á myndatöku þegar Fréttablaðið falaðist eftir því.

Segir engan ganga inn í gamlan meirihluta

Einar Þorsteinsson er gestur í Fréttavaktinni í kvöld á Hringbraut. Þar segir hann meðal annars að kjósendur hafi sent skýr skilaboð í kosningunum um helgina.

,,Meiri­hlutinn féll og það eru skýr skila­boð frá kjós­endum. Því er enginn að fara að ganga inn í neinn nú­verandi meiri­hluta næstu fjögur árin. Við erum að tala um nýjan meiri­hluta með nýjum mál­efna­samningi,“ segir Einar í við­talinu.

Engar form­legar við­ræður um meiri­hluta eru hafnar. Ó­form­legar við­ræður fara nú fram og sagðist Einar hafa rætt við Hildi, Dag, Þór­dísi Lóu og Kol­brúnu í dag. Hann segir líklegt að einhverjir dagar líði áður en meirihluti verði myndaður.

„Það þarf að myndast traust milli fólks. Ég ætla ekkert að drífa mig í þessu en það er þó gott að hafa á­kveðinn tíma­ramma því borgar­stjórn kemur saman í byrjun júní og þá er gott að vera búin að ljúka þessu,“ segir Einar.