Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fullyrðir að verslun ÁTVR verði áfram í miðborginni. Þar að auki verði hún „í auðveldu göngufæri“ og jafnvel tvær verslanir.
Dagur greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni í morgun og kveðst hafa átt fund með forstjóra ÁTVR þar sem þetta var til umræðu. Kveðst hann ætla að fara yfir þessi mál og fleiri á opnum íbúafundi í miðborginni í Ráðhúsinu í kvöld.
Greint var frá því í nóvember síðastliðnum að ÁTVR ætlaði að flytja útibú sitt í Austurstræti í nýtt húsnæði. Var auglýst eftir hentugu leiguhúsnæði í miðborginni og voru nokkrar eignir skoðaðar. Í lok nóvember kom fram að útlit væri fyrir að vínbúðin færi í nýtt húsnæði á Fiskislóð.
Dagur bendir á í færslu sinni að margir hafi bent á að áfram þyrfti verslun í miðborginni ef verslunin í Austurstræti flytti út á Granda.
„Á fundi með forstjóra ÁTVR handsöluðum við að búðin í Austurstræti myndi ekki loka þrátt fyrir að samningar næðust á Grandanum. Upplýsti hann að ef Austurstrætinu yrði lokað yrði auglýst eftir 1-2 vel staðsettum en minni verslunum á miðborgarsvæðinu til að koma í staðinn,“ segir hann.
Hann segir að þetta sé góð niðurstaða og vel hægt að sjá fyrir sér tvær minni verslanir; aðra á svæðinu við Lækjartorg og Hafnartorg og hina á svæðinu við Hlemm. Það kæmi til móts við þann stóra fjölda fólks sem býr og vinnur á svæðinu og einnig erlenda ferðamenn.
Það verður áfram verslun ÁTVR í miðborginni - í auðveldu göngufæri, jafnvel tvær. Þetta varð ljóst á fundi mínum með forstjóra ÁTRV. Fer yfir þessi mál og fleiri á opnum íbúafundi í miðborginni í kvöld í ráðhúsinu. En sjálfsagt að rekja aðeins aðdragandann og umræðuna. 1/
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) April 6, 2022