Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri fullyrðir að verslun ÁTVR verði á­fram í mið­borginni. Þar að auki verði hún „í auð­veldu göngu­færi“ og jafn­vel tvær verslanir.

Dagur greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni í morgun og kveðst hafa átt fund með for­stjóra ÁTVR þar sem þetta var til um­ræðu. Kveðst hann ætla að fara yfir þessi mál og fleiri á opnum í­búa­fundi í mið­borginni í Ráð­húsinu í kvöld.

Greint var frá því í nóvember síðast­liðnum að ÁTVR ætlaði að flytja úti­bú sitt í Austur­stræti í nýtt hús­næði. Var aug­lýst eftir hentugu leigu­hús­næði í mið­borginni og voru nokkrar eignir skoðaðar. Í lok nóvember kom fram að út­lit væri fyrir að vín­búðin færi í nýtt hús­næði á Fiski­slóð.

Dagur bendir á í færslu sinni að margir hafi bent á að á­fram þyrfti verslun í mið­borginni ef verslunin í Austur­stræti flytti út á Granda.

„Á fundi með for­stjóra ÁTVR hand­söluðum við að búðin í Austur­stræti myndi ekki loka þrátt fyrir að samningar næðust á Grandanum. Upp­lýsti hann að ef Austur­strætinu yrði lokað yrði aug­lýst eftir 1-2 vel stað­settum en minni verslunum á mið­borgar­svæðinu til að koma í staðinn,“ segir hann.

Hann segir að þetta sé góð niður­staða og vel hægt að sjá fyrir sér tvær minni verslanir; aðra á svæðinu við Lækjar­torg og Hafnar­torg og hina á svæðinu við Hlemm. Það kæmi til móts við þann stóra fjölda fólks sem býr og vinnur á svæðinu og einnig er­lenda ferða­menn.