Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksinssegir landsmálin hafa áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins í borginni. Flokkurinn fékk 8 fulltrúa í síðustu borgarstjórnarkosningum en fengju fimm í dag samkvæmt nýlegri könnun Prósent fyrir Fréttablaðið sem birtist síðastliðinn fimmtudag, rúmlega 19 prósent í stað en tæpra 31 síðast þegar kosið var.

Meirihlutinn heldur en Samfylkingin tapar í könnuninni, fengu 7 fulltrúa áður en 6 ef kosið yrði núna - Mælist nú með 23,3 prósent og mælist töluvert lægri en í kosningum þegar hann fékk 25,9 prósent.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri oddviti Samfylkingarinnar og Hildurmæta á Fréttavaktina í kvöld.

„Við erum auðvitað bara mjög vonsvikin með þessa könnun, þótt þetta sé bara könnun, en við erum vonsvikin með hana og ég hugsa að það sé bara þung umræða í landsmálum að undanförnu sem hefur ekki verið að vinna með okkur og tekið líka bara svolítið sviðið í umræðunni,“ segir Hildur um fylgistapið í könnuninni.

Stuttur tími

„Ég held að það sé mjög óvenjulegt að sveitarstjórnarkosningar fái svo rosalega stuttan tíma í fjölmiðlaumræðu og umræðu í þjóðfélaginu eins og núna,“ segir hún.

Framsókn mælist með þrjá menn inni í umræddri könnun. Aðspurður hvort hann muni leita til oddvita flokksins verði sú raunin, Framsókn sem er nú ekki með neinn fulltrúa í borgarstjórn, segir Dagur að hann muni halda sig við samstarfið eins og nú er: „Ég hef sagt frá upphafi að mér finnst stefna í spennandi kosningar og er auðvitað lykilatriði að núverandi meirihluti haldi. Við held ég öll höfum gefið það út að samstarfið hefur gengið vel og við deilum, þótt þetta séu fjórir ólíkir flokkar, þá deildum við skýrri framtíðarsýn fyrir borgina og erum dáldið í miðju kafi í stórum verkefnum,“ segir Dagur.

Ræða fyrst við meirihlutaflokkana haldi fylgið

„Svo ég held að fyrstu samtölin, ef meirihlutinn heldur erum við þá flokkarnir sem nú eru í meirihluta. Af minni hálfu alveg klárlega.“