Al­þjóða­sam­fé­lagið hefur nú for­dæmt herinn í Mjanmar en síðast­liðinn laugar­dagur markaði blóðugasta dag mót­mælanna frá því að herinn tók völdin í landinu þann 1. febrúar. Joe Biden Banda­ríkja­for­seti og leið­togar Evrópu­sam­bandsins eru meðal þeirra sem hafa kallað eftir að of­beldinu linni.

Alls létust 107 manns á laugar­daginn eftir átök við herinn, sam­kvæmt Sam­einuðu þjóðunum, en þann dag fór fram ár­leg skrúð­ganga til heiðurs her­afla Mjanmar. Sam­kvæmt hjálpar­sam­tökum fyrir pólitískra fanga, AAPP, hafa að minnsta kosti 459 látist frá því að herinn tók völdin, en meðal látinna eru þó nokkur börn.

„Þetta er gjör­sam­lega sví­virði­legt,“ sagði Biden á blaða­manna­fundi um málið í gær en hann sagði fjöl­marga hafa látist án á­stæðu. Joseph Borrell, yfir­maður utan­ríkis­mála hjá Evrópu­sam­bandinu, sagði enn fremur að fögnuður her­foringja­stjórnarinnar hafi spillst með „degi hryllings og skammar.“

Fjöl­margir hafa nú flúið Mjanmar vegna of­beldisins og er óttast að enn fleiri muni reyna að forða sér, til að mynda til Tæ­lands, í kjöl­far loft­á­rása hersins við landa­mærin. Að því er kemur fram í frétt AP frétta­stofunnar voru þrjár slíkar á­rásir gerðar í nótt en þegar hafa þúsundir flúið til Tæ­lands. Yfir­völd þar í landi búa sig nú undir frekari fólks­flutninga.

Krefjast þess að ofbeldinu linni

Að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið hafa fjöl­margar þjóðir lýst yfir van­þóknun á hernum og að­gerðum þeirra en varnar­mála­leið­togar tólf þjóða, þar á meðal Bret­lands, Kanada, Þýska­lands og Japans, gáfu út sam­eigin­lega yfir­lýsingu um málið síðast­liðinn laugar­dag og til­kynntu að þau myndu beita her­foringja­stjórninni refsi­að­gerðum.

„Fag­legur her fylgir al­þjóð­legum kröfum um fram­ferði og ber á­byrgð á því að vernda – ekki skaða – fólkið sem það þjónar. Við hvetjum her Mjanmar til að stöðva of­beldið og vinna að því að koma aftur á virðingu og trú­verðug­leika hjá fólkinu í Mjanmar sem það tapaði með að­gerðum sínum,“ segir í yfir­lýsingunni.