Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í samtali við Fréttablaðið að fullt samráð hafi verið við fulltrúa ríkisins í viðræðunum. „Lóðin sem um ræðir var áður hugsuð sem lóð fyrir íþróttahús Borgarholtsskóla en fyrir nokkrum árum náðust samningar um að íþróttir í skólanum yrðu í Egilshöll í Grafarvogi. Þar með var ekki þörf fyrir íþróttahús á þessum stað,“ segir hann.

Skólameistari Borgarholtsskóla, íbúasamtök Grafarvogs og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna harðlega fyrirhugaða uppbyggingu hjúkrunarrýma við lóð Borgarholtsskóla. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur undirrituðu samning um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir 144 íbúa í maí síðastliðnum.

„Bygging hjúkrunarheimilis á þessum stað er vægast sagt glapræði,“ segir Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla. Hann hafi reynt að fá svör um lóðina í áraraðir en það hafi ekki verið fyrr en eftir undirritun samningsins sem hann hafi fengið svör frá borgarstjóra.

Sjálfstæðismenn vilja að fallið verði frá uppbyggingunni

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir að á fundi borgarstjórnar á þriðjudag verði lögð fram tillaga um að falla frá uppbyggingunni við skólann og hjúkrunarheimilinu fundinn nýr staður.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Nú er mikið talað um fjórðu iðnbyltinguna og mikilvægi tæknináms, þess vegna þarf skólinn þróunarsvæði, með þessu er verið að slátra því,“ segir Eyþór. „Það er nógu slæmt að missa Tækniskólann án þess að þrengja að Borgarholtsskóla. Þetta er klassískt samráðsleysi, það er ekki talað við skólameistara eða íbúa.“

Ársæll segir að gert hafi verið samkomulag árið 1995 um að lóðin skyldi vera til umráða fyrir Borgarholtsskóla til framtíðar. Til stóð að hefja framkvæmdir fyrr á þessu ári en þær eru ekki hafnar. „Ég mun leggjast flatur fyrir framan gröfurnar,“ segir Ársæll.

Borgin vill ekki dragast inn í deilur

Dagur segir að í samskiptum við Borgarholtsskóla hafi komið fram óánægja með áherslur og forgangsröðun í húsnæðismálum. Í samræmi við stefnu mennta- og menningarmálaráðherra sé uppbygging í forgangi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, þá hafi einnig verið viðraðar hugmyndir um nýja byggingu fyrir Tækniskólann. „Reykjavíkurborg vill ekki dragast inn í þessar deilur og lítur svo á að stefnumörkun á sviði framhaldsskóla sé á höndum menntamálaráðuneytisins og hefur vísað skólameistara á ráðuneytið hvað varðar umræðu um þá hluti,“ segir Dagur.

Borgin hafi tekið sérstaklega fram við ráðuneytið og Borgarholtsskóla að það mætti vinna að hugmyndum um list- og verknám, til dæmis í tengslum við uppbyggingu kvikmyndafyrirtækja í Gufunesi. „Reykjavíkurborg vill hins vegar ekki blandast inn í hugsanlegar deilur um forgangsröðun í uppbyggingu húsnæðismála framhaldsskóla heldur leggur áherslu á gott samstarf við menntamálaráðuneytið og þá framhaldsskóla sem ráðuneytið leggur áherslu á varðandi uppbyggingu.“

Mennta- og menningarmálaráðuneytið