Á forsíðu Fréttablaðsins í dag birtist ný skoðanakönnun sem bendir til þess að stuðningur við meirihlutann í Reykjavík hafi aukist undanfarin misseri. Alls virðast 57,9% kjósenda í höfuðborginni styðja flokkana í meirihlutanum samanborið við 46,4 prósent í kosningunum vorið 2018.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, var vígreifur á Twitter-síðu sinni í morgun.

Fagnaði hann þeim vísbendingum sem koma fram í skoðanakönnuninni og líkti því við rothögg að andstæðingar þeirra í Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki Fólksins voru eingöngu með 30% samkvæmt könnuninni.

Sérstaklega virtist Dagur ánægður með þá staðreynd að fylgi Miðflokksins væri aðeins 5% enda hefur Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi flokksins, nýtt hvert tækifæri til þess að hjóla í borgarstjórann og fulltrúa meirihlutans á yfirstandandi kjörtímabili.

Á fundi borgarráðs í gær lét til dæmis Vigdís bóka neðangreinda skoðun sína þar sem hún fór hörðum orðum um Dag, skrifstofustjórann Helgu Björgu Ragnarsdóttur og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formanns borgarráðs.

Það sætir furðu að formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, skuli hleypa skrifstofustjóra borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, Helgu Björgu Ragnarsdóttur inn á fund borgarráðs í dag, einkum og sér í lagi í ljósi þess, að eineltisteymi ráðhússins hefur látið mál sem Helga Björg hefur rekið gegn mér í tæp tvö ár niður falla. Enn furðulegra er það í ljósi þess að siðanefnd Dómarafélag Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að Helga Björg Ragnarsdóttir hefur farið erindisleysu í öllum sínum málatilbúnaði þvert á það sem Helga Björg hélt fram í Facebook-færslu sinni um álit siðanefndar Dómarafélagsins. Formaður borgarráðs á að vinna fyrir alla kjörna fulltrúa og ber að sjá til þess að þeim líði vel í störfum sínum á fundum borgarráðs. Borgarráð ræður embættismenn og rekur samkvæmt skipuriti Reykjavíkur. Skrifstofustjóri Dags B. Eggertssonar hefur brotið á mér sem kjörnum fulltrúa með lygum, óheiðarleika og upplognum sökum. Það er krafa mín að hún haldi sig fjarri þeim fundum sem ég sit í ljósi niðurstöðu eineltisteymis ráðhússins. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs er ekki starfi sínu vaxin.