Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar að bíða með að greina frá ákvörðun sinni um hvort hann muni bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum í vor þangað til hann hefur lokið sóttkví.

„Það fór þá aldrei svo að ég eða fjölskyldan færum í gegnum faraldurinn án þess að lenda í sóttkví. Allt er einu sinni fyrst. Eftir að eitt barnanna greindist með Covid heldur fjölskyldan til á heimilinu í alls konar fjarvinnu og fjarfundum - á öllum hæðum. Vonum að það versta sé afstaðið og aðrir hafa hingað til ekki smitast. Öllum líður vel,“ skrifar Dagur á Facebook.

Hann segir að nokkrir fjölmiðlar hafi haft samband við sig í dag og í gær til að spyrja um ákvörðun hans en Dagur hafði sagt að hann myndi greina frá því eftir hátíðarnar.

„Ég vona að það mæti skilningi að ég muni ekki segja frá niðurstöðu minni fyrr en sóttkví lýkur sem verður vonandi um helgina eða strax eftir helgi.“