Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur hefur verið valin til þess að taka við stjórnarformennsku í borgarstjórnarsamstarfi OECD. Samstarfið sem samanstendur af hátt í 100 borgarstjórum leiðandi borga víðsvegar um heiminn hefur það markmið að auka jöfnuð í vaxandi borgum. Samstarfið hefur einnig það markmið hjálpa borgum að greina og takast á við ójafnrétti sem myndast getur í örum vexti borgarsamfélaga

„Þetta er í raun stjórnarformennska í borgarstjórnarsamstarfi OECD, sem er öflug alþjóðastofnun svo þetta er heiður fyrir mig og Reykjavík. Þarna koma saman borgarstjórar frá leiðandi borgum sem leggja í púkk um bestu leiðirnar til að þróa borgirnar,“ sagði Dagur í samtali við Fréttablaðið.

„Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem við veljumst til forystu í verkefni af þessu tagi. Þetta er alþjóðastofnun þannig að borgin er svolítið að komast á kortið. Við höfum fengið töluverða athygli fyrir árangur í forvarnarmálum unglinga. En þetta er í fyrsta skipti sem að við leiðum eitthvað af þessu tagi,“ sagði Dagur

Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar bauð Dag hjartanlega velkominn í samstarfið í dag. „Ég býð honum allan minn stuðning nú þegar hann tekur við þessu mikilvæga hlutverki,“ sagði hún.