Dagur B. Eggertsson, núverandi borgarstjóri, segir engar formreglur gilda um meirihlutamyndanir í sveitarfélögunum. Hann vildi ekki tjá sig um það hvort hann yrði fyrst í sambandi við Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknar, varðandi myndun á meirihluta í Reykjavík aðspurður nú skömmu fyrir hádegi.

„Fólk þarf svolítið að finna út úr þessu sjálft en auðvitað er líklegt að málin ráði því hvaða meirihluti verði myndaður og fólk nálgist á næstu dögum á grundvelli þeirra. Ég geng svolítið út frá því að málflutningurinn eins og hann var í aðdraganda kosninga leggi línur um það en auðvitað verður þetta allt að koma í ljós,“ segir Dagur í samtali við Fréttablaðið.

Dagur segir það liggja alveg fyrir að sami meirihluti verði ekki áfram.

Dagur segir fylgistap Samfylkingarinnar skýrast af mikilli sveiflu Framsóknarflokksins, „bæði meirihlutinn og þeir sem voru í minnihluta í Ráðhúsinu tapa fylgi."

Að sögn Dags sýndi Framsóknarflokkurinn ákveðin klókindi í aðdraganda kosninganna, með að taka undir áformin um borgarlínu og önnur stór verkefni sem meirihlutinn stóð fyrir.

Þannig hafi flokkurinn stækkað fylgi sitt á meðan Sjálfstæðisflokkurinn gerði það ekki.