Dagskrá sjómannadagsins sem alla jafna fer fram fyrstu helgina í júní með pompi og prakt verður með hófstilltara sniði vegna samkomutakmarkana sem enn eru í gildi. Þannig verða engin skipulögð hátíðarhöld en þeir atburðir sem eru á dagskrá eru annars vegar messa í Dómkirkjunni í Reykjavík og lágstemmdur atburður í Hafnarfirði.

Hálfdán Henrysson, formaður sjómannadagsráðs, segir að blása þurfi sjómannadagshátíðina af í fyrsta skipti í 83 ár en ekki hafi verið stætt á öðru. Hins vegar verði messunni í Dómkirkjunni í hádeginu á morgun útvarpað og gestir velkomnir þar á meðan húsrúm leyfir. Þá muni Hafnfirðingar geta heiðrað sjómenn fyrripartinn á morgun.

„Við tókum ákvörðun um það í miðjum faraldrinum að ekki væri annað í stöðunni en að blása hátíðarhöldin af í þeirri mynd sem þau hafa verið,“ segir Hálfdán. Fánar verða dregnir að húni á hátíðarsvæði við höfnina í Hafnarfirði klukkan átta, klukkan tíu mun Lúðrasveit Hafnarfjarðar leika við Hrafnistu. Blómsveigur verður lagður að minnisvarða við Víðistaðakirkju um horfna sjómenn klukkan 10.45 og korteri síðar hefst Sjómannamessa í Víðistaðakirkju. Dagskránni lýkur svo með afhendingu trillu til Byggðasafns klukkan 14.