Eigandi sumarhúsalóðar sleppur ekki við tuttugu þúsund króna dagsektir sem byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps boðaði á hann í október vegna rusls á lóðinni.

Í kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sagði lóðareigandinn að dagsektirnar væru geðþóttaákvörðun byggingarfulltrúans. Kvaðst hann vera með „skaðaðan bústað sem sé í vinnuferli“ og ekki væri mögulegt að verða við kröfu um tiltekt á lóðinni á þessum tíma árs og á svo stuttum tíma. Munirnir á lóðinni væru ekki fyrir neinum og fyrirsjáanlegt að selja þurfi bústaðinn með verulegum afföllum vegna ákvörðunarinnar. Á mörgum öðrum lóðum í sumarhúsahverfinu væri að finna sambærilega hluti og svo hafi verið árum saman.

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps var bent á að umrædd lóð sé í skipulagðri frístundabyggð. Farið hafi verið fram á það 8. september í haust að allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir af lóðinni. Mánuði síðar hafi ekki enn verið brugðist við.

Úrskurðarnefndin segir í niðurstöðu sinni að byggingarfulltrúi geti mælt fyrir um úrbætur þar sem hlutum sé áfátt við eignir. Hann hafi heimild til að leggja á allt að hálfri milljón króna í dagsektir til að knýja fram úrbætur.

„Fyrirliggjandi ljósmyndir af lóð kæranda bera með sér að þar sé talsvert af byggingarúrgangi, rusli og öðrum lausafjármunum. Er því engum vafa undirorpið að frágangi, ásigkomulagi og umhverfi lóðar hans hafi á umræddum tíma verið ábótavant,“ segir úrskurðarnefndin. „Var því byggingarfulltrúa rétt að leggja á kæranda dagsektir til að knýja á um úrbætur á lóð hans, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur umhirðu hennar verið ábótavant um árabil.“