Strætó hefur hafið sölu á tímabilskorti, eða dag­spassa, sem gildir í 24 klukku­stundir. Verðið á passanum er 1.930 krónur, sem jafn­gildir fjórum ferðum fyrir full­borgandi full­orðna far­þega. Á Facebook síðunni Félag strætófarþega hefur skapast lífleg umræða um ágæti slíks dagpassa, en sumum þykir verðið í hærra lagi.

„Mér finnst dýrt að taka strætó. Það þarf fimm ferðir til þess að þetta borgi sig. Verðið þarf að vera þannig að maður vilji taka strætó en meðan það er svona hátt fælir það marga frá,“ segir í einni at­huga­semd.

Spurður segir Jóhannes Svavar Rúnars­son, fram­kvæmda­stjóri Strætó, verðið vera það sama og var á gamla dag­passanum á árum áður.

„Þetta er fyrst og fremst hugsað fyrir út­lendinga, þannig að það var á­kveðið að hafa þetta í hærra laginu, eins og var áður,“ segir Jóhannes,og heldur á­fram: „En auð­vitað mega inn­lendir kaupa þetta, það er ekkert sem bannar það, en þetta var sett á lag­girnar á sínum tíma til þess að stíla inn á er­lenda ferða­menn. Við erum ekki að niður­greiða eins mikið til þeirra eins og þeirra sem eiga heima á höfuð­borgar­svæðinu,“ segir Jóhannes. Þetta sé þekkt lausn í heimi sam­gangna, að vera með dags- og þriggja daga passa fyrir er­lenda ferða­menn.

Jóhannes segir að með nýju greiðslu­kerfi Strætó séu ýmsar nýjungar væntan­legar, á borð við greiðslu­þak, eða „capping“, eins og þekkist víða er­lendis.

„Þá borgar þú aldrei meira en á­kveðið mörg far­gjöld á dag og á­kveðið mörg far­gjöld á viku, og færð svo frítt eftir það. Við erum með fullt af hlutum sem koma inn smátt og smátt í þetta nýja greiðslu­kerfi. Síðan erum við að vinna í því að búa til kerfi fyrir snerti­laus greiðslu­kort, eins og fólk þekkir er­lendis frá, en þetta kemur vonandi fljót­lega á næsta ári,“ segir Jóhannes.