Lands­réttur sýknaði í dag dag­móður fyrir sér­stak­lega hættu­lega líkams­á­rás gegn barni sem hún var með í sinni um­sjá. Konan var dæmd til 9 mánaða fangelsis­vistar í mars 2018 í Héraðs­dómi Reykja­víkur og var þess krafist að hún greiddi barninu og fjöl­skyldu þess 500 þúsund krónur en niður­stöðu Lands­réttar segir að ekki sé talið að sekt hennar hafi verið sönnuð.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá í kjöl­far dómsins árið 2018 átti at­vikið sem um ræðir sér stað þann 17. októ­ber 2016 en þá var barnið flutt á bráða­mót­töku barna á Land­spítalanum við Hring­braut og sagði konan að barnið hafi fallið úr stól þegar hún sá ekki til. Barnið hafi orðið hresst skömmu síðar en hún hafi á­kveðið að leita að­stoðar eftir að hún tók eftir á­verkum á hálsi barnsins.

Síðar sama dag bárust þær upp­lýsingar frá lækni að á­verkar barnsins sam­rýmdust ekki frá­sögn konunnar. Var það þá mat réttar­meina­fræðings að ekki væri hægt að ganga út frá því að á­verkarnir hefðu myndast við fall úr stól og að grunur væri um að of­beldis­verknað væri að ræða. Í dómnum kom fram að ljóst væri að um eitt eða fleiri högg væri að ræða.

Sekt konunnar ekki sönnuð

Í niður­stöðu Lands­réttar kemur fram að á­frýjandi aflaði yfir­mats­gerðar fyrir Lands­rétti og komst annar yfir­mats­mannanna að þeirri niður­stöðu að ekki væri hægt að úti­loka að á­verkarnir á barninu hefðu komið til á þann hátt sem dag­móðirinn sagði til um. Þá segir að rann­sókn lög­reglu hafi að ýmsu leyti verið á­bóta­vant og að ein­blínt hafi verið um of á frá­sögn dag­móðurinnar fyrir dómi.

„Sam­kvæmt öllu framan­sögðu verður ekki talið, gegn ein­dreginni neitun á­kærðu, að sannað sé svo að hafið sé yfir skyn­sam­legan vafa, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109 gr. laga nr. 88/2008 um með­ferð saka­mála, að hún hafi veist með of­beldi að B á þann hátt sem í á­kæru greinir,“ segir að lokum í niður­stöðu Lands­réttar.

„Af þeim sökum verður á­kærða sýknuð af brotum gegn 2. mgr. 218. gr. al­mennra hegningar­laga og 98. gr. barna­verndar­laga sem hún er sökuð um.“

Dóminn í heild sinni má lesa hér.