Dagforeldri í Reykjavík sem vakti hörð viðbrögð foreldra í fyrra vegna ummæla á Facebook er enn starfandi.

Þetta kemur fram í svörum frá skóla- og frísundasviði Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Skjáskot af ummælum dagforeldrisins fór aftur í dreifingu á dögunum og hófust umræður á Facebook á ný þar sem spurt var hvort viðkomandi dagforeldri væri enn starfandi.

Skóla- og frístundasviði bárust athugasemdir vegna ummæla dagforeldrisins á Facebook í maí í fyrra og hófst þá rannsókn á málinu í samvinnu við Barnavernd.

Dagforeldrið setti ummæli undir spurningu móður á Facebook-síðunni Mæðra-tips! þar sem óskað var eftir ráðleggingum vegna barns á fyrsta ári sem ætti til að bíta frá sér.

Ráðleggingar dagforeldrisins var að slá barnið fast og rækilega utan undir, einu sinni eða tvisvar ef það næði því ekki í fyrra skiptið. Ummælin vöktu hörð viðbrögð foreldra sem tilkynntu dagforeldrið.

Hér má sjá ummælin sem vöktu hörð viðbrögð í fyrra og leiddu til rannsóknar á dagforeldrinu.
Fréttablaðið/Skjáskot af Facebook

Samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frísundasviði lauk rannsókn á málinu í september í fyrra og var málinu lokað í kjölfarið.

Dagforeldrið hafi átt langa og farsæla sögu og eftir ummælin hafi skóla- og frísundasvið hafið eftirlit.

Óskað hafi verið eftir umsögn daggæsluráðgjafa og leitað hafi verið eftir ummælum foreldra.

„Engar athugasemdir komu fram, aftur á móti kom fram ánægja foreldra með daggæsluna,“ segir að lokum í svari sviðsins.