AÐVÖRUN myndbandið og þær lýsingar sem birtast í þessari frétt geta valdið óhug.

Dagblaðið Austin-American Statesman í Texas ríki í Bandaríkjunum birti í gær myndband af skotárásinni í Uvalde. Myndbandið sem í heild sinni er um 77 mínútur sýnir aðdraganda og atburðarás árásarinnar. Dagblaðið birti einnig klippta útgáfu sem eru um fjórar mínútur sem sýnir aðalatriði atburðanna.

Í myndbandinu sést greinilega hvernig lögreglan bregst við skotárásinni en lögreglumenn í borginni hafa verið ásakaðir um að bregðast of seint við.

Atburðarásin hefst þegar byssumaðurinn klessir bíl sínum rétt fyrir utan skólann. Hann gengur síðan rakleitt að skólanum á meðan kennarar og nemendur hrópa og kalla.

Klukkan 11:33 gengur hann beint inn í skólann og hefur þá skothríðina. Fjórum mínútum síðar er lögreglan komin á svæðið.

Lögreglumenn ganga að stofunni en skotmaðurinn skýtur að þeim og hörfa þeir þá aftur inn á ganginn.

Lögreglan hefur þá bið sem endist til 12:50 þegar þeir loksins fara inn og skjóta árásarmanninn.

Þá höfðu 19 nemendur og 2 kennarar látist.

Bið lögreglunnar var byggð á því að um afgirtan skotmann væri að ræða en ef skotmaður hefur komið upp hindrunum breytist aðgerðaáætlun lögreglu umtalsvert og gerir ekki ráð fyrir að ráðist sé beint inn í aðstæður. Lögreglustjórinn Pete Arredondo er aðilinn sem stöðvaði framgöngu lögreglu og taldi að bíða ætti með aðgerðir en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín.

Tekist á um myndbirtinguna

Skiptar skoðanir eru á birtingu myndbandsins en til stóð að sýna fjölskyldum látinna myndbandið nú á sunnudaginn og stóð til að birta það almenningi eftir það. Ekki er þó víst hvort sú útgáfa hefði verið eins ítarleg og sú sem dagblaðið birti.

Dagblaðið tók ákvörðun um að birta myndefnið áður en yfirvöldum gafst færi á að gefa það út sjálf. Bæjarstjóri Uvalde, Don Mclaughlin var mjög gagnrýninn á myndbirtinguna og sagði hana vera „það skræfulegasta sem hann hefði séð“.

Hann ásamt Steven McCraw, yfirmanni öryggismála almennings í Texas telur að myndbandið hefði fyrst átt að vera birt fjölskyldum og aðstandendum áður en það fór í almenna dreifingu.

Aðstandendur hafa margir hverjir gagnrýnt birtingu myndbandsins. „Við skiljum að fjölmiðlar vilji draga fólk til ábyrgðar, þar sem stjórnvöld hafa ekki gagnsæ í þessu máli,“ sagði Kimberly Rubio, sem missti 10 ára dóttur sína í árásinni, í samtali við CNN

„En þú þarft ekki hljóðrás til þess og þú þarft ekki að birta allt myndbandið. Það sem til stóð að sýna okkur hefði dugað. Hann (ritstjóri blaðsins) þurfti ekki gera þetta“

Í yfirlýsingu frá dagblaðinu sem birti myndbandið tjáði ritstjóri blaðsins, Manny Garcia, sig um málið og sagði að „Myndbirtingin og atburðarásin er birt hér frítt með almannahagsmuni að sjónarmiði. Við erum öll á eftir sannleikanum,“ sagði hann.

Myndböndin má sjá hér fyrir neðan.