Tveir karlmenn á aldrinum 32 og 38 ára voru í dag dæmdir í eins árs og sex mánaða fangelsi fyrir að hafa nauðgað ungri konu á Óslóarferjunni í apríl síðastliðinn.

Mennirnir tveir, sem eru frændur, voru um borð í Óslóarferjunni í fjölskylduferð í apríl. Annar þeirra mætti þar 32 ára gamalli konu sem var undir áhrifum áfengis og bauðst til að fylgja henni aftur í káetu sína. Þegar það heppnaðist ekki bauð hann henni að gista í káetu þeirra frændanna.

Samkvæmt frásögn konunnar höfðu frændurnir samræði við hana í káetunni og færðu hendur hennar til þess að láta hana fróa þeim. Í dómnum sem kveðinn var upp í dag var áréttað að konan hefði verið ölvuð og hvorki í ástandi til að veita samþykki sitt né til að veita mótspyrnu.

Auk fangelsisdómsins voru frændurnir dæmdir til að greiða konunni 50.000 danskar krónur, eða rúmlega eina milljón íslenskra króna, í miskabætur. Saksóknarinn Stine Skovgaard sagði við danska fréttamiðilinn Ekstra Bladet að hún væri ánægð með dóminn.

Frændurnir segjast ætla að áfrýja dómnum.