Veitingamenn hafa undanfarið kvartað yfir því að von sé á miklum hækkunum á hráefni, áfengi og þjónustu. Vel er þekkt að matvöruverð hefur hækkað en einnig hækkun er á áfengisgjaldi í spilunum ásamt launahækkunum. Þá er veitingageirinn einnig að koma undan mjög erfiðu ári tengdu COVID.
Gísli Matthías Auðunsson, veitingamaður var gestur Fréttavaktarinnar í kvöld en hann rekur tvo veitingastaði í Vestmannaeyjum og rekur einnig aðra staði í Reykjavík. Hann birti á dögunum færslu á Facebook síðu sinni þar sem hann gagnrýnir rekstrarumhverfi fyrir veitingastaði í dag.
„Frá því að þessi status kom inn þá hafa aldeilis fréttir verið að birtast á mörgum stöðum og það hafa margir bæði sent mér skilaboð eða skrifað athugasemd við hann og tekið í sama streng. Það eru greinilega margir sem eru að hugsa um þetta,“ segir Gísli en hann telur að með komandi hækkunum sé rekstur veitingastað við það að hætta að ganga upp. Þá segir hann athyglin sem færslan hafi fengið hafi stafað af því að hún hafi birst á réttum tíma.
„Ég held að þetta verið góð tímasetning á þessari hugvekju,“ segir hann.

Stóðu sig of vel í COVID
Gísli rekur veitingastaðinn Slippurinn í Vestmannaeyjum en þegar tekið hafi að halla undan fæti í rekstri hans hafi hann og samstarfsaðilar hans ákveðið að opna skyndibitastaðinn ÉTA til þess að auka við veltuna. Sá staður var skráður á sömu kennitölu og Slippurinn og þar sem velta staðanna var á endanum ekki undir 40 prósentum af árinu reyndust staðirnir ekki gjaldgengir fyrir styrki frá hinu opinbera.
„Í stuttu máli þá til þess að reyna að bjarga okkur þá opnuðum við annan lítinn veitingastað til þess að reyna að ná í þá veltu sem við þurftum til að halda rekstrinum gangandi. En þetta hafði mikinn kostnað með sér í för,“ segir Gísli en vissulega kostar það sitt að standsetja fyrirtæki.
„En á COVID árunum sýndum við ekki nægilega mikið tap hjá því félagi. Ég var að reka annan veitingastað líka í Reykjavík sem við eiginlega gáfumst upp á og börðumst ekki jafn mikið fyrir. En hann fellur inn í alla styrki,“ segir Gísli sem telur þetta vera undarlega leið til þess að koma veitingastöðum til bjargar.
„Þannig að það eru margir sem eru mjög brenndir í því að hafa reynt að bjarga sér í COVID. En þá féllu þeir ekki undir neina styrki hjá hinu opinbera,“ segir hann.
Situr aldrei mikið eftir
Á nýju ári eru hækkanir á áfengisgjaldinu framundan og hafa flestir fundið fyrir því að matvörur hafi einnig hækkað. Þá bætast einnig launahækkanir við í kjölfarið vegna kjaraviðræðna. Gísli segir að með þessu sé það nánast að verða ómögulegt að halda veitingastað réttu megin við núllið.
„Veitingarekstur hefur aldrei verið þannig rekstur að það sitji mikið eftir. Maður þarf alltaf að vera rosalega hagkvæmur í því að stilla upp til þess að það sé einhver afgangur. En núna þegar laun eru að hækka, hráefni er orðið svakalega dýrt og öll þjónusta líka orðin mjög dýr þá leyfi ég mér að fullyrða að það er nánast ekki möguleiki að reka veitingastað í dag og hafa hann réttu megin við núllið,“ segir Gísli sem veltir því fyrir sér hvað sé til bragðs að taka til þess að viðhalda góðri flóru af veitingastöðum á Íslandi.
„það er grunnforsenda þess að vera með blómlegan veitingastað í þeirri frábæru veitingaflóru sem við erum með að hann standi réttu megin við núllið. Það er svakalega mikil vinna á bak við hvern einasta rétt sem fer fram úr eldhúsum og það getur enginn sett sig í skuldir endalaust. Þannig að það er grunnlínan í þessu að dæmið er einfaldlega hætt að ganga upp,“ segir Gísli að lokum.