„Fólk er að hringja inn og vill losna úr samningum sínum, vegna atvinnuleysis, minnkandi tekna og því um líkt,“ segir Kolbrún Villadsen, stjórnandi Leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna. Leigjendur séu þá að leitast eftir að komast í minna húsnæði eða í annan landshluta.

Samtökin hafa ekki tölur yfir útburðarmál. Þau mál taki yfirleitt tíma og fólk leiti annarra leiða. Húsaleigusamningar eru hins vegar margir með ákveðnum tímamörkum en ekki uppsagnarfresti. Eða þá löngum uppsagnarfresti, jafnvel sex mánaða. „Við leiðbeinum fólki eftir því hverjar aðstæðurnar eru,“ segir Kolbrún.

sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi segir leigjendur eiga sér fáa málsvara á Íslandi.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, hefur beitt sér fyrir málefnum leigjenda í borginni. Staðan sé hins vegar sú að leigjendur eigi sér fáa málsvara þar sem Samtök leigjenda á Íslandi, sem eru sjálfboðaliðasamtök, hafa að mestu legið í dvala í ár.

„Fólk sem átti erfitt fyrir hefur það ekkert betra í dag, heldur þvert á móti,“ segir Sanna. „Það er með sömu tekjur en matvöruverð og fleira er að hækka. Ofan á leggst kostnaður við spritt og andlitsgrímur og því fylgir aukinn kostnaður að vera svona mikið heima við.“ Margir neyðist til að leigja svart og njóta engra réttinda eða styrkja. Þrátt fyrir að fólk hafi lágar tekjur sé það ekki sjálfgefið að fá félagslegt húsnæði. „Þú þarft að uppfylla ákveðin tekjuviðmið og búa við erfiðar félagslegar aðstæður til að komast á listann,“ segir Sanna.

„Fólk sem átti erfitt fyrir hefur það ekkert betra í dag, heldur þvert á móti.“

Ráðherra boðaði réttarbót fyrir leigjendur

Í febrúar kynnti Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra frumvarp um breytingar á húsaleigulögum. Á það meðal annars að tryggja langtímaöryggi leigjenda og koma í veg fyrir óeðlilega miklar verðhækkanir. Frumvarpið fékk neikvæðar umsagnir frá Húseigendafélaginu, Samtökum atvinnulífsins og leigusölum. „Unnið hefur verið að breytingum á frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir frumvarpinu á komandi þingi,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins.

Sanna segir bætta stöðu leigjenda aðkallandi. „Strax í upphafi COVID hefði ríkisstjórnin átt að stíga fram og segja að enginn yrði borinn út og setja þak á leiguverð hvers fermetra.“ Staðan sé hins vegar erfið því leigjendur hafi ekki sterka rödd.