SAMFOK, Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, hafa óskað eftir fundi með skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar til að ræða ástand húsnæðis Fossvogsskóla og líðan barna sem finna enn fyrir myglueinkennum þrátt fyrir að búið sé að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir.

Beðið eftir niðurstöðum úr sýnatöku

Fossvogsskóla var lokað að hluta til vorið 2019 eftir að mygla fannst í húsnæði skólans. Skólinn var opnaður að nýju um haustið, eftir að hópur barna og starfsmanna hélt áfram að finna fyrir einkennum var ráðist í frekari framkvæmdir síðasta sumar í samráði við skólaráð. Verkfræðistofan Verkís skilaði af sér skýrslu í byrjun síðasta hausts og tjáði Reykjavíkurborg að óþarfi væri að ráðast í sýnatökur.

Sýnatökur fóru fram að kröfu foreldra og leiddi það í ljós að varhugaverðar tegundir væru enn að þar að finna. Var þá ráðist í frekari þrif. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg voru sýni tekin um mánaðarmótin nóvember/desember í fyrra, voru svo fleiri sýni tekin síðar í desember sem send voru í tegundagreiningu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ. NÍ hefur lokið greiningu en niðurstöðurnar verða ekki gerðar opinberar fyrr en Verkís skilar skýrslu til Reykjavíkurborgar, verður það gert á næstunni.

Eitt barn flutt úr hverfinu

Sigríður Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK, segir þetta ferli taka of langan tíma. Veik börn séu í skólanum og það liggi fyrir að þau megi rekja til myglu í húsnæðinu. Eitt barn er nú þegar flutt úr hverfinu og farið úr skólanum vegna mygluvandans. „Við erum komin á þann stað að börn eru farin að fela einkenni sín frá foreldrum vegna þess að þau eru hrædd um að þurfa að skipta um skóla.“

Fram kom í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar sem send var í desember í kjölfar fyrirspurna Fréttablaðsins að starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs og annað starfsfólk borgarinnar sem hafa komið að málefnum Fossvogsskóla hafi ætíð hlustað á bæði foreldra og foreldraráð skólans og tekið fullt mark á þeim athugasemdum og ábendingum sem komið hafa fram. „Húsnæðið hefur allt verið tekið í gegn og komið í veg fyrir rakavandamál,“ sagði í yfirlýsingunni.

Sigríður segir mikið vantraust í garð borgarinnar, það sé staða sem þurfi að leysa. „Það vantar málsvara barnanna í kerfinu, þess vegna er svo mikilvægt að hægt sé að leita til okkar. Það á ekki að vera þannig að foreldrarnir, sem hafa staðið sig gríðarlega vel í þessu máli, séu einir að berjast við kerfið.“

Lagað þannig að enginn finni fyrir einkennum

Ragnheiður Davíðsdóttir, formaður SAMFOK og áheyrnarfulltrúi foreldra barna í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar, segir að hún hafi óskað eftir því að málið verið sett á dagskrá ráðsins sem fyrst. „Það skiptir gríðarlega miklu máli að það sé gott samstarf milli okkar, skólans, foreldra, rödd barnanna og sviðsins. Þetta sé alvöru samstarf og gert af góðum hug þannig að enginn bakki í vörn, heldur að þetta sé lagað þannig að ekkert barn finni fyrir einkennum í húsnæðinu,“ segir hún.

„Við hjá SAMFOK styðjum foreldra og foreldrafélagið í þeirra barráttu að standa vörð um velferð barna sinna og ég tel það mjög mikilvægt að það þurfi að vera góða samvinna og traust til staðar. Það þarf að útrýma allri myglu og klára vinnuna við skólann, ekkert barn á að finna fyrir einkennum þegar þeirri vinnu er lokið. Þó það sé kostnaðarsamt þá er það nauðsynlegt. Það er ekki hægt að verðleggja heilsu og velferð nemenda.“

Frásagnir frá fleiri skólum

Sigríður segir augljóst að mál Fossvogsskóla verði ekki það síðasta sem komi upp. „Okkur hefur borist frásagnir af rakaskemmdum og grun um myglu frá fleiri skólum í borginni en málin eru viðkvæm og fólk forðast að ræða þau,“ segir hún.

Nota þurfi reynsluna af hvað hafi gengið vel og hvað fór úrskeiðis í tilfelli Fossvogsskóla til að sambærileg máli fari ekki sömu leið. „Það er tilviljanakennt hvernig staðið er að þessu, Kársnesskóli var rifinn, farið var í viðgerðir á Fossvogsskóla en enn eru börn veik. Ég kannast ekki við búið sé að ganga úr skugga að engin mygla sé í Breiðholtsskóla,“ segir Sigríður. „Stóra málið er fjármagn til að ferli sé til staðar, hvergi í kerfinu verði árekstrar við opinbera aðila eða verktaka sem trúi ekki á tilvist myglu. Ef borgin getur ekki tryggt að engin skaðleg mygla sé í skólahúsnæði þá verður ríkið að grípa inn í.“

Vilja láta leita að myglu í fleiri skólum

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu leggja fram tillögu í skóla- og frístundaráði í dag um að leitað verði að myglu í nokkrum grunnskólum. Breiðagerðisskóla, Réttarholtsskóla, Hvassaleitisskóla, Álftamýrarskóla og Laugarlækjarskóla.

„Við viljum að ástand grunnskóla Reykjavíkur sé tekið út og foreldrar upplýstir um ástand húsnæðisins,“ segir Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi.