Borið hefur á að aðrir sinni störfum hjúkrunarfræðinga innan einstakra heilbrigðisstofnana og séu jafnvel ráðnir í stöðugildi þeirra.

Halla Eiríksdóttir, varaformaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir málið alvarlegt og brot á lögum. Þá fái þjónustuþeginn aldrei þessar upplýsingar.

Ábendingar hafi borist frá hjúkrunarfræðingum þar sem verið sé að ráða nema, hjúkrunar- og læknanema og sjúkraliða án framhaldsmenntunar í störf sem hjúkrunarfræðingar hafi gegnt.

„Starfslýsingum hefur ekki verið breytt, svo þeir viti, þannig að það er verið að ráða aðra starfsmenn í störf hjúkrunarfræðinga,“ segir Halla.

Hvergi á landinu er að sögn Höllu til ákveðin tala, í lagalegum skilningi, yfir fjölda hjúkrunarfræðinga sem eiga að starfa á hverjum stað. Hins vegar sé til undanþágulisti þar sem skilgreint sé með lögum lágmarksviðmið út frá gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustu.

„Þá eru skilgreind fjöldastöðugildi hjúkrunarfræðinga og við vitum að þessi fjöldi er sums staðar kominn undir þessi viðmið án þess að starfsemi hafi verið breytt.“

Hjúkrunarfræðingar eru ósáttir við að aðrar starfsstéttir gangi í störf þeirra. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ef breyting verður á leyfisskyldri heilbrigðisstarfsemi samkvæmt reglugerð þarf að tilkynna það til Embættis landlæknis.

„Við vitum í sjálfu sér ekki hvað hefur verið tilkynnt og hvað Embætti landlæknis hefur gert til að samþykkja breytingarnar,“ segir Halla og bætir við að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sé að vekja athygli á því að heilbrigðiskerfið sé víða rekið á þeim forsendum að fólk sé ráðið í störf annarra.

„Maður á kannski ekki að nota samlíkingu, en ef þú ert að fara í flugvél þá er flugþjónninn ekki settur inn í staðinn fyrir flugstjóra, það er bara ekki flogið. En heilbrigðiskerfið gerir ekki þessar ráðstafanir, þetta er meðvirkni upp alla línuna og þjónustuþeginn fær aldrei þessar upplýsingar,“ segir Halla.

Þetta auki álag á menntuðum hjúkrunarfræðingum sem þurfi að bera ábyrgð á starfsmönnum sem standist ekki menntunarkröfu.

„Eftir álagstímabil síðastliðinna tveggja ára eru þolmörkin búin meðal hjúkrunarfræðinga og meðal stéttarinnar. Við teljum það skyldu okkar að vekja athygli á því að það sé verið að manna stöður hjúkrunarfræðinga ekki með réttum formerkjum í stað þess að loka eða draga úr þjónustu,“ segir Halla.

Fréttablaðið óskaði eftir svörum frá Embætti landlæknis sem gat ekki orðið við þeirri beiðni fyrir dagslok í gær.