Gunnar Rúnar Sigurþórsson, sem dæmdur var í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Hannesi Þór Helgasyni í október 2011, er á stefnumótaforritinu Tinder en Fréttablaðið hefur undir höndum skjáskot af notanda Gunnars á forritinu. Því var meðal annars deilt inni á Facebook hópnum „Stöndum saman - Stefnumótaforrit,“ en á hópnum gefst konum kostur á að segja frá slæmri reynslu af körlum og konum á stefnumótaforritum.
Páll Winkel, forstöðumaður Fangelsismálastofnunar, segist í samtali við Fréttablaðið ekki geta tjáð sig um einstaka mál en segir að síðari hluti afplánunar fyrir slíka dóma fari gjarnan fram á heimili fanga, þar sem þeir séu með ökklaband.
Gunnar var handtekinn í águstmánuði árið 2010 en þá voru tólf dagar liðnir frá því að Hannes Þór Helgason fannst myrtur á heimili sínu. Við yfirheyrslur hjá lögreglu játaði Gunnar Rúnar verknaðinn.
Í mati geðlækna kom fram að sjálfsvíg föður Gunnars hafi haft mikil áhrif á Gunnar og raskað tilfinningalífi hans. Gunnar afplánaði árið 2017 í opnu fangelsi að Sogni og fékk við það tilefni rétt til að fá dagleyfi úr fangelsinu.
„Ég get ekki tjáð mig um mál einstakra manna en ég gat sagt að fangar afplána jafnan 2/3 af refsitímunum en síðustu árin eru menn heima hjá sér með ökklaband og árið þar áður, og allt að sextán mánuði í heildina eru menn á áfangaheimili,“ segir Páll.
„Það er ekki öruggt að menn séu búnir með afplánun þó þeir séu ekki lengur í fangelsi innan veggja fangelsanna. Þetta er svona tröppugangur. Þú byrjar í fangelsi, svo á áfangaheimili og endar svo heima hjá þér með ökklaband, undir rafrænu eftirliti sem kallað er,“ segir Páll.
„Þegar menn eru dæmdir í 16 ára fangelsi eru þeir ekki allan þennan tíma í fangelsi en þetta er auðvitað háð því að viðkomandi sé hæfur,“ segir Páll.
Spurður hvort mönnum leyfist að nýta slík stefnumótaforrit eins og Tinder á meðan afplánun stendur, segir Páll að erfitt að koma í veg fyrir það og tekur hann fram að menn megi ekki vera á netinu í lokuðu fangelsi.