Gunnar Rúnar Sigur­þórs­son, sem dæmdur var í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Hannesi Þór Helga­syni í októ­ber 2011, er á stefnu­móta­for­ritinu Tinder en Frétta­blaðið hefur undir höndum skjá­skot af notanda Gunnars á for­ritinu. Því var meðal annars deilt inni á Facebook hópnum „Stöndum saman - Stefnumótaforrit,“ en á hópnum gefst konum kostur á að segja frá slæmri reynslu af körlum og konum á stefnumótaforritum.

Páll Win­kel, for­stöðu­maður Fangelsis­mála­stofnunar, segist í sam­tali við Frétta­blaðið ekki geta tjáð sig um ein­staka mál en segir að síðari hluti af­plánunar fyrir slíka dóma fari gjarnan fram á heimili fanga, þar sem þeir séu með ökkla­band.

Gunnar var hand­tekinn í águst­mánuði árið 2010 en þá voru tólf dagar liðnir frá því að Hannes Þór Helga­son fannst myrtur á heimili sínu. Við yfir­heyrslur hjá lög­reglu játaði Gunnar Rúnar verknaðinn.

Í mati geð­lækna kom fram að sjálfs­víg föður Gunnars hafi haft mikil á­hrif á Gunnar og raskað til­finninga­lífi hans. Gunnar af­plánaði árið 2017 í opnu fangelsi að Sogni og fékk við það til­efni rétt til að fá dag­leyfi úr fangelsinu.

„Ég get ekki tjáð mig um mál ein­stakra manna en ég gat sagt að fangar af­plána jafnan 2/3 af refsi­tímunum en síðustu árin eru menn heima hjá sér með ökkla­band og árið þar áður, og allt að sex­tán mánuði í heildina eru menn á á­fanga­heimili,“ segir Páll.

„Það er ekki öruggt að menn séu búnir með af­plánun þó þeir séu ekki lengur í fangelsi innan veggja fangelsanna. Þetta er svona tröppu­gangur. Þú byrjar í fangelsi, svo á á­fanga­heimili og endar svo heima hjá þér með ökkla­band, undir raf­rænu eftir­liti sem kallað er,“ segir Páll.

„Þegar menn eru dæmdir í 16 ára fangelsi eru þeir ekki allan þennan tíma í fangelsi en þetta er auð­vitað háð því að við­komandi sé hæfur,“ segir Páll.

Spurður hvort mönnum leyfist að nýta slík stefnu­móta­for­rit eins og Tinder á meðan af­plánun stendur, segir Páll að erfitt að koma í veg fyrir það og tekur hann fram að menn megi ekki vera á netinu í lokuðu fangelsi.