Dumitru Calin hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi, eftir að hann banaði Daníel Eiríkssyni fyrir utan heimili hans í Vindakór árið 2021.
Atvikið átti sér stað í apríl 2021, en þá hafði Daníel haldið báðum höndum í hliðarrúðu á bíl sem Dumitru ók og dregist eða hlaupið með bílnum um 14 metra, þar til hann féll niður. Bílnum var ekið á 15 til 20 kílómetra hraða.
Þegar Daníel féll til jarðar ók Dumitru af vettvangi án þess að huga að honum og vegna þess telur saksóknari að hann hafi stofnað lífi og heilsu Daníels í augljósan háska. Daníel lést daginn eftir á spítala vegna höfuðáverka.
Fyrir héraðsdóm var Dumitru dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi og til sviptingu ökuréttar í 18 mánuði. Þá var honum einnig gert að greiða foreldrum Daníels 1.5 milljón til hvors þeirra.
Málinu var áfrýjað til Landsréttar, sem birti niðurstöðu sína í dag. Þar kom fram að Daníel og Dumitru hafi talað saman símleiðis um morguninn og hittust þeir í kjölfarið á bifreiðarplani fyrir utan heimili Daníels. Eftir orðasamskipti á milli mannana hafi Dumitru ekið bifreið sinni af stað og Daníel hélt í hliðarrúðu bílsins. Bifreiðinni var ekið með 15 til 20 kílómetra hraða, þar til Daníel féll í jörðina og við það hlotið alvarlega höfuðáverka, sem leiddu til þess að hann lést degi síðar.
Dumitru taldi að háttsemi hans hafi verið refislaus, þar sem skilyrði laga um neyðarvörn hafi verið uppfyllt. Landsréttur dró ekki í efa Dumitru hafi óttast Daníel, en að sögn Dumitru var Daníel í annarlegu ástandi og miðaði haglabyssu að honum. Ekki var fallist á að skilyrði um neyðvörn hafi verið uppfyllt, hins vegar var framferði Dumitru slegið að föstu sem gáleysisbrot.
Þá sýndi Dumitru algert skeytingarleysi um ástands Daníels eftir fallið, en hann keyrði af vettvangi án þess að huga að Daníel.
„Með því að yfirgefa brotaþola eftir fallið án þess að kanna ástand hans og eftir atvikum kalla eftir aðstoð, en hið síðarnefnda hefði ákærði hæglega getað gert án þess að nálgast brotaþola, sýndi ákærði af sér algert skeytingarleysi um ástand hans,“ segir meðal annars í dómnum.
Dumitru var því sakfelldur fyrir manndráp af stórfelldu gáleysi og fyrir að yfirgefa Daníel án þess að kanna ástand hans og kalla eftir aðstoð.
Landsréttur mildaði dóm héraðsdóms og er Dumitru gert að sæta fangelsi í tvö ár, í stað þriggja og hálfs árs. Dumitru verður sviptur ökuréttindum í 18 mánuði. Honum er einnig gert að greiða foreldrum Daníels skaðabætur, 1.5 milljón til hvors foreldris og helmings alls áfrýjunarkostnað málsins.