Karlmaður hlaut í dag eins árs fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjaness fyrir stórfelld skattalagabrot.

Honum er einnig gert að greiða tæplega 207 milljóna sekt vegna brota sinna. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna þarf maðurinn að sæta 360 daga fangelsi.

Maðurinn framdi brot sín sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri einkahlutafélags, þar sem hann var með prófkúru.

Honum var gefið að sök að hafa ekki staðið í skilum á virðisaukaskattskýrslum félagsins árið 2019 og 2020, sem vörðuðu rúmlega 23 milljónir króna. Og síðan fyrir að standa ekki í skilum á staðgreiðslu opinberra gjalda árin 2019, 2020 og 2021, sem vörðuðu tæplega 78 milljónir.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust og taldi dómari ekki ástæðu til að draga játningu hans í efa.