Karl­maður í Víet­nam var í vikunni dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að virða ekki sótt­varnar­reglur og dreifa kórónu­veirunni til átta manns. Einn þeirra smituðu lést úr co­vid-19. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Þangað til ný­lega hefur Víet­nam gengið á­gæt­lega í bar­áttunni við veiruna með hörðum sótt­varnar­reglum. Smitum hefur hins vegar fjölgað til muna frá því júní á þessu ári og hefur delta-af­brigðið leikið landið grátt. Alls hafa 530 þúsund manns fengið veiruna í Víet­nam og yfir 13 þúsund látist af völdum hennar. Stór hluti dauðs­fallanna hafa átt sér stað á síðustu mánuðum.

Út­breiðsla veirunnar er mest í Ho Chi Minh-borg en hinn 28 ára Le Van Tri, sem hlaut dóm í vikunni, ferðaðist frá borginni í heima­bæinn sinn í Ca Mau í suður­hluta Víet­nam.

Víetnamar í skimun í höfuðborginni Hanoi.
Ljósmynd/EPA

Laug um ferðasögu og braut sóttkví

Tri mun hafa logið um ferða­sögu sína þegar hann kom í borgina og braut einnig sótt­kví. Allir sem koma inn í Ca Mau þurfa að fara í 21 daga sótt­kví. Tri greindist síðan með co­vid-19 og smitaði fjöl­skyldu­með­limi sína á­samt starfs­fólk vel­ferðar­mið­stöðvar sem hann heim­sótti.

Réttar­höldin og dóms­upp­kvaðning fór fram samdægurs. Tri þarf einnig að greiða 111 þúsund króna sekt.