Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið dæmdur í 32 mánaða fangelsi, rúmlega tvö og hálf ár, fyrir ítrekuð umferðarlagabrot.

Héraðsdómur á Norðurlandi eystra tók fyrir þrjár ákærur gegn manninum sem varða brot framin í maí 2020, febrúar 2021 og apríl 2021.

Í fyrsta atvikinu var hann tekinn fyrir að aka bílnum sínum undir áhrifum áfengis og amfetamíns frá Krambúðinni við Borgarabraut á Akureyri, vestur Borgarbraut, norður Bugðusíðu og vestur Kjalarsíðu þar sem hann stöðvaði bifreiðina fyrir framan hús. Maðurinn hafði þá verið sviptur ökurétti og var þar að auki óhæfur til að stjórna bílnum vegna ástands.

Í seinna atvikinu var hann tekinn fyrir sambærilegt brot en þá var hann stöðvaður af lögreglu við Kjarnagötu. Lögreglan fann í vörslun hans 9,83 grömm af amfetamíni.

Í þriðja atvikinu hafði lögregla afskipti af honum fyrir framan Bónus við gatnamót Mihúsabrautar og Kjarnagötu en þangað hafði hann ekið undir áhrifum áfengis. Í sömu ákæru er fjallað um brot framið mánuði síðar í Reykjavík en þá var hann stöðvaður af lögreglu fyrir að aka sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana-og fíkniefna.

Við aðalmeðferð játaði maðurinn sök. Samkvæmt sakavottorði hefur hann margítrekað verið fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis. Maðurinn var sviptur ökurétti ævilangt og dæmdur í 32 mánaða fangelsi. Sömuleiðis voru gerð upptæk 9,83 grömm af amfetamíni og honum gert að greiða 535.800 krónur í sakarkostnað.