Jón Rúnar Péturs­son var í lok síðustu viku dæmdur í 21 mánaða fangelsi, í Héraðs­dómi Reykja­víkur, fyrir sér­stak­lega hættu­lega líkams­á­rás.

Jón Rúnar, sem er á fer­tugs­aldri, veittist að konu með of­beldi og henti henni fram af svolunum í íbúð hans á annarri hæð í Breið­holti þann 16. septem­ber árið 2019.

Konan hlaut marg­vís­lega á­verka eftir á­rásina, meðal annars heila­hristing, blæðingar og bólgur undir húð í and­liti á­samt skurðum yfir kjálka vinstra megin, brot á tveimur stöðum í neðri kjálka, brot í kinn­holu í efri kjálka, brotnar tennur og brot á mjaðma­beini.

Læknir sagði konuna teljast heppna að hafa sloppið við al­var­legri á­verka. Lang­tíma­á­hrif, sér­stak­lega af kjálka­brotinu, væru þó ó­viss á þessari stundu.

Jón Rúnar var hand­tekinn sama kvöld og á­rásin var framin og sætti gæslu­varð­haldi frá 17. septem­ber til 13. októ­ber. Jón var á skil­orði þegar hann var hand­tekinn vegna annars brots. Gæslu­varð­haldið verður dregið frá dómnum.

Jón neitaði al­farið að hafa hent konunni fram að svölunum og sagðist ekki hafa orðið vitni að því þegar hún féll. Vitni af á­rásinni kvaðst þó hafa séð manninn „vippa“ konunni yfir svala­hand­riðið og þver­tók konan sjálf fyrir að hafa hoppað sjálf niður af svölunum.

Jóni er einnig gert að greiða konunni 3,7 milljónir króna auk vaxta og allan máls­kostnað sem hljóðar upp á rúmar þrjár milljónir.