Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í fimm ára fangelsi fyrir nauðgun, stórfellda líkamsárás og stórfellt brot í nánu sambandi en maðurinn var einnig ákærður fyrir tilraun til manndráps.
Maðurinn réðst að fyrrverandi unnustu og sambýliskonu sinni aðfaranótt mánudagsins 1. ágúst 2022 með ofbeldi, hótunum og ólögmætri nauðung. Hann hafði einnig samræði og önnur kynferðismök við hana án hennar samþykkis utandyra og inni í bifreið. Hann var einnig sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás gegn annarri konu sem hann réðst á sama dag er hann sló hana ítrekuðum hnefahöggum í andlitið.
Í dómi héraðsdóms segir að maðurinn hafi brotið bílrúðu á bifreiðinni og slegið brotaþola ítrekað í andlitið höfuðið og líkama. Honum var einnig gefið að sök hafa rifið í hár hennar, sett hníf að hálsi hennar, þvingað hana til að liggja ofan á glerbrotum, hótað henni líkamsmeiðingum m.a. með því að klippa eða skera af henni snípinn, skera hana á háls og klippa af henni hárið.
Áverkar konunnar voru miklir en hún hlaut mar og eymsli á enni og hægra megin á hvirfli, bólgu og eymsli yfir nefbeinum, bólgu og mar á augnloki og kringum hægra auga, bólgu og sár á neðri vör hægra megin og brot á málbeini vinstra megin, svo dæmi séu tekin. Hún var einnig með punktablæðingu á hljóðhimnu vinstra megin, hrufl á hægri öxl, skrapsár á hægri síðu, skrámur víðs vegar á neðri hluta baks og á báðum rasskinnum, mar á hægri olnboga, hrufl á báðum hnjám, mar á innanverðu hægra læri, hægri nára og hægri ökla, skrámur víðs vegar á fótleggjum.
Leitaði skjóls í íbúð hjá ókunnugum
Maðurinn krafðist sýknu fyrir dómi og byggði kröfu sínu á því að háttsemin væri ósönnuð, ásetning hans skorti til að fremja brotin og að fyrir hafi legið samþykki brotaþola vegna kynmakanna og meintrar líkamsárásar tengdum þeim.
Eftir árásina leitaði brotaþoli skjóls í íbúð hjá fólki sem hún þekkti ekki sem hringdu á lögregluna. Íbúðareigandi kvaðst hafa vaknað við að dyrabjöllunni var hringt og reyndist það vera brotaþoli að óska eftir hjálp.
Hann hefði hleypt henni inn og reyndist hún vera buxnalaus og blóðug og sagði honum að fyrrverandi kærasti hennar hefði ráðist á hana. Brotaþoli sat í stofu íbúðarinnar þegar lögreglu bar að og var hún með glóðarauga og bólgin á hægragagnauga og innan á vörinni. Einnig mátti sjá blóðbletti í peysu hennar og í hári. Virtist hún vera í uppnámi og gekk erfiðlega að ræða við hana en sagði á endanum að fyrrverandi kærasti hennar, ákærði, hefði ráðist á hana.
Skýrla var tekin af brotaþola á slysadeild sama dag og atvik gerðust og í dómi héraðsdóms segir að hún hafi sagt ákærða „vera stóru ástina í lífi sínu og væri hún búin að vera mjög upptekin af honum en þau hefðu hætt saman í ágúst í fyrra.“
Neitaði sök og sakaði konuna um að byrla sér
Í skýrslutöku neitaði maðurinn fyrir að hafa beitt konuna ofbeldi án hennar samþykkis. Hann sakaði hana um að hafa byrlað fyrir sér. Hann viðurkenndi að hafa reynt að hafa samræði við konuna en sagði það hafi verið með hennar samþykki og að hann náði honum ekki upp.
Kvaðst hann ekki hafa lagt hendur á brotaþola á meðan á kynlífinu stóð en hafa tekið hana hálstaki þegar þau voru úti að ríða.
Þau hafi síðan farið að rífast og hún hafi hlaupið út. Réttarlæknisfræðileg skoðun á manninum sýndi fram á að hann væri með sex ferskar skrámur og klórmerki á vinstra herðablaði/öxl ásamt fjölda annarra smávægilegra meiðsla.
„Hinar ýmsu rispur á herðablaði og síðu gætu samrýmst klórmerkjum og marið sem hann er með gæti verið eftir áverka,“ segir í dómi héraðsdóms.
Maðurinn var sem fyrr segir dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir nauðgun og stórfellda líkamsárás. Hvað nauðgunarbrotið varðar segir héraðsdómur að brotið hafði alvarlegar líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir brotaþola „og með því braut hann gróflega gegn kynfrelsi hennar. Var brot ákærða gegn 194. gr. almennra hegningarlaga sérstaklega gróft og niðurlægjandi.“
Til frádráttar dæmdri refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 2. ágúst 2022 með fullri dagatölu.