Landsréttur staðfesti í dag enn einn dóm héraðsdóms yfir Guðmundi Andra Ástráðssyni fyrir ölvunarakstur. Um er að ræða sextánda dóminn yfir Guðmundi fyrir umferðarlagabrot.

Guðmundur Andri er mörgum kunnur en hann var kærandi þess máls hjá Mannréttindadómstól Evrópu sem setti starfsemi Landsréttar í uppnám og varð fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Á Andersen, að falli árið 2019.

Játaði skýlaust

Í dóminum kemur fram að Guðmundi hafi fimmtán sinnum áður verið gerð refsing vegna brota á umferðarlögum.

Brotið sem hann var nú dæmdur fyrir var framið í apríl 2020, rúmu ári eftir að hann hafði fyrst sigur hjá Mannréttindadómstól Evrópu í Landsréttarmálinu.

Málið var dæmt sem játningarmál enda játaði Guðmundur brot sín skýlaust.  Um refsiákvörðun var vísað til sakavottorðs Guðmundar en samkvæmt því hefur hann 15 sinnum frá árinu 2005 hlotið dóm fyrir brot á umferðarlögum, hegningarlögum, vopnalögum og  lögum  um  ávana-og  fíkniefni. 

Með hliðsjón af sakaferli og áralangri dómvenju var Guðmundur dæmdur í 12 mánaða fangelsi. Þá var ævilöng svipting ökuréttinda áréttuð.

Yfirdeild Mannréttindadómstólsins kvað upp lokadóm í Landsréttarmálinu 1. desember í fyrra. Niðurstaðan var einróma. Ekki hafi verið farið að lögum við fyrstu skipun dómara við Landsrétt og af því leiðir að þeim sem dæmdir voru af dómurum réttarins sem ekki voru skipaðir í samræmi við lög, var ekki tryggð réttlát málsmeðferð fyrir dómi. Um fordæmisgefandi dóm var að ræða sem MDE hefur nokkrum sinnum vísað til í nýlegum dómum.