Í gær hlaut karlmaður tveggja ára skilorðsbundin fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness fyrir nauðgun sem átti sér stað árið 2012, en þá var maðurinn sautján ára og brotaþoli sextán ára. Fram kemur að dómurinn væri skilorðsbundin í ljósi þess hve langt væri liðið frá brotinu, en brotaþolinn kærði málið til lögreglu árið 2019.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða 1,5 milljón króna í miskabætur og 2,1 milljón í sakarkostnað.

Lýsingar á brotinu sem maðurinn var ákærður fyrir eru ekki fyrir viðkvæma, en það varðaði að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við sextán ára stelpu gegn hennar vilja, með því að beita hana „ofbeldi og ólögmætri nauðung, meðal annars með því að káfa á brjóstum hennar og kynfærum innanklæða og færa hana úr buxum og nærbuxum og hafa við hana munnmök, neytt hana til að veita sér munnmök og hafa við hana samræði en ákærði lét ekki af háttseminni þrátt fyrir að [stúlkan] hafi látið hann vita að hún vildi þetta ekki, bæði hann ítrekað um að hætta og reyndi að ýta honum burt.“

Samkvæmt lögregluskýrslu voru maðurinn og konan skólafélagar í grunnskóla, ágætis vinir og nágrannar. Þegar atvikið átti sér stað var hún í tíunda bekk að læra fyrir samræmd próf. Hún vildi meina að hann hafi blekkt sig til að hitta sig umrætt kvöld, og hún hafi farið heim til hans þegar faðir hennar var farinn að sofa. Heima hjá honum hafi þau horft á Friends-þátt og í kjölfarið hafi hann nauðgað henni.

Maðurinn neitaði sök. Hann bar fyrir sig að hann hafi verið í mikilli neyslu þegar atvikið átti sér stað og sagðist ekki muna eftir því.

Fréttablaðið/Ernir

„Þú varst 24 gellan sem ég setti typpið á mér inní ;)“

Fram kemur í dómnum að nokkrum mánuðum eftir atvikið hafi þau rætt saman á Facebook. Hann hafi haft samband við hana og í fyrstu hafi hún ekki viljað svara. „Af hverju ætti ég að tala við þig?“ er haft eftir henni og í kjölfarið spurði hann hvers vegna hún ætti ekki að vilja tala við hann.

„Brotaþoli kvaðst þá hafa sagt að hún hafi haldið að hann væri öðruvísi gaur vegna alls þess sem gerðist hjá þeim síðast. Ákærði hafi þá svarað að hann væri bara svona, hann væri gaur sem ríði stelpum og tali ekki mikið við stelpuna eftir það en hann sé ekki mikið fyrir sambönd. Brotaþoli kvaðst hafa svarað á móti já, greinilega ekki, þú vilt ekki sambönd þú vilt bara nauðga fólki.“ segir úr lýsingum á samskmiptumm þeirra í dómi Héraðsdóms.

Þá voru síðustu skilaboð mannsins höfð orðrétt eftir honum: „haha ég erbara svona, ég ríð bara og tala svo ekki mikið við stelpuna aftur, þú varst 24 gellan sem ég setti typpið á mér inní ;)“

Skilaboðin beri vott um algjört skeytingarleysi

Í dómnum segir að í skilaboðunum sé að finna beina ásökun brotaþola um nauðgun sem ákærði hafi ekki mótmælt. Þvert á móti beri svör hans vott um algjört skeytingarleysi í garð konunnar.

Jafnframt þóttu skilaboðin þeirra á milli sanna að þau hefðu haft samræði umrætt kvöld, en maðurinn vísaði til þeirra í einhverjum smáatriðum áður en brotaþoli gerði það.

Eitt af gögnum málsinsnvar vottorð frá sálfræðingi frá árinu 2013. Sálfræðingurinn taldi konuna ekki vera með áfallastreitueinkenni þegar vottorðið var skrifað, en hélt þó að hún hafi upplifað áfallastreitueinkenni eftir nauðgunina.

Þá þótti framburður konunnar um það sem gerðist umrætt kvöld skilmerkilegur og trúverðugur. Á hinn bóginn þótt framburður mannsins ekki trúverðugur. Auk þess þótti famburður vitna styðja við frásögn konunnar.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn tveggja ára skilorðsbundin dóm og var dæmdur til að greiða 1,5 milljón króna í miskabætur og 2,1 milljón í sakarkostnað.