Karlmaður var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps og stórfelldar líkamsmeiðingar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Maðurinn réðst á tvo samstarfsfélaga sína á þjóðhátíðardaginn á Seltjarnarnesi og hefur hann sætt gæsluvarðhaldi frá árásinni og kemur hún til frádráttar fangelsisvistarinnar. Í ákæru gegn manninum segir að hann hafi komið aftan að samstarfsfélögum sínum og ráðist á þá.
Mennirnir störfuðu hjá verktakafyrirtæki og sló maðurinn fyrrum samstarfsfélaga sinn með klaufhamri og jarðhaka í höfuð og búk með þeim afleiðingum að vinnufélaginn þríhöfuðkúpubrotnaði.
Maðurinn er sagður hafa slegið hinn vinnufélagann einnig í hausinn með klaufhamri.
Ákæruvaldið fór fram á fimm ára fangelsi gegn manninum sem er heldur minna en niðurstaða héraðsdóms. Í samtali við mbl.is gar Karl Ingi ekki svarað því að svo stöddu hvort málinu yrðu áfrýjað.
Við aðalmeðferð málsins í héraði sagði maðurinn málið eiga sér aðdraganda og sagði hann að 15. júní tveimur fyrir árásirnar, hafi mennirnir niðurlægt og ógnað honum. Það hefðu þeir gert með því að láta skóflu síga niður á höfuð hans.
Karl Ingi Vilbergsson saksóknari sagði erfitt að taka mark á framburði mannsins. Þá sagði hann lýsingar hans á atburðunum í aðdraganda árásanna ekki geta legið til grundvallar, en vinnufélagarnir tveir könnuðust ekki við þá. Þó sagði hann ljóst að eitthvað hefði átt sér stað þann 15. júní, en erfitt væri að segja hvað það væri.