Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í tólf mánaða fangelsi, en þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir, í Landsrétti fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði, árið 2017, dæmt manninn í tólf mánaða fangelsi án skilorðsbundinnar refsingar.

Maðurinn var ákærður í þremur liðum fyrir meint brot gagnvart tveimur dætrum sínum frá janúar til júní árið 2015.

Í þeim fyrsta var honum gefið að sök að hafa káfað á kynfærum dóttur sinnar í fleiri skipti. Annar ákæruliðurinn varðaði brot þar sem hann átti að hafa margsinnis horft á klámmyndir í viðurvist dætra sinna. Og í þriðja liðnum var honum gefið að sök að hafa einu sinni fróað sér í stofunni á heimili þeirra í viðurvist annarar dótturinnar.

Maðurinn neitaði sök og var sakfelldur í fyrsta liðnum, en sýknaður í hinum tveimur. Fram kemur að dóttirin sem er brotaþoli í fyrsta ákæruliðnum hafi verið sjö ára þegar hún gaf fyrst skýrslu um málið í júlí 2015. Hún hefur því verið annað hvort verið sex eða sjö ára þegar brotin voru framin.

Framburður dótturinnar þótti trúverðugur, en tekið var tillit til þess að um væri að ræða minningar sjö ára barns. Þá studdi framburður þriggja vitna framburð hennar.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn tólf mánaða fangelsisdóm, þar sem níu mánuðir eru skilorðsbundnir. Þá er honum gert að greiða dóttur sinni eina milljón. Þá var ákveðið að allur sakarkostnaðurinn yrði greiddur úr ríkissjóði.