Portúgalskur karlmaður hlaut á dögunum fimm mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fíkniefnasmygl, en efnin þurfti að fjarlægja úr manninum með skurðaðgerð. Þrír mánuðir refsingarinnar voru óskilorðsbundnir, en tveir þeirra skilorðsbundnir til tveggja ára.

Maðurinn flutti 334,53 grömm af kókaíni til Íslands með flugi frá Helsinki, höfuðborg Finnlands, þann 12 apríl á þessu ári.

Efnin voru falin innvortis í líkama mannsins í 34 pakkningum og voru þær fjarlægðar með skurðaðgerð á Landspítalanum tveimur dögum eftir að hann kom til landsins. Það gerðist eftir að pakkning með fíkniefnunum rofnaði og hann veiktist alvarlega.

Fram kemur að styrkleiki efnanna hafi að meðaltali verið 69 til 72 prósent styrkleika, en það samsvarar 77 til 81 prósent af kókaínklóríði.

Burðardýr sem kom ekki að skipulagningu eða fjármögnun

Maðurinn játaði sök, og þá þótti samvinnufús við rannsókn málsins. Þá er ekki vitað til þess að hann hafi áður gerst sekur um refsivert brot.

Í dómnum segir að gögn málsins bendi til þess að hann hafi ekki komið að skipulagningu eða fjármögnun innflutningsins heldur hafi hann einungis verið svokallað burðardýr.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn fimm mánaða dóm, sem var annars vegar óskilorðsbundin í þrjá mánuði og hins vegar skilorðsbundin í tvo mánuði.

Þá mun maðurinn þurfa að greiða tæpa eina og hálfa milljón í sakarkostnað, en rúmlega 1,1 milljón af því fer til verjanda hans.