Héraðs­dómur Reykja­víkur dæmdi í síðasta mánuði karl­mann fæddan árið 1996 í skil­orðs­bundið fangelsi fyrir kyn­ferðis­brot gegn stúlku fæddri 1999 á tjald­svæði árið 2013. Maðurinn var þá sex­tán ára og stúlkan þrettán ára. Honum var gert að greiða stúlkunni 400 þúsund krónur í miska­bætur. Hann neitaði sök í málinu.

Lög­reglu­rann­sókn á brotum piltsins hófst árið 2017 að beiðni fé­lags­ráð­gjafa, eftir að stúlkan hafði greint frá kyn­ferðis­brotunum í við­tölum við sál­fræðing. Stúlkan hafði leitað sál­fræði­að­stoðar vegna kvíða og depurðar og var greind með á­falla­streitu­röskun eftir at­vikin.

Brotin áttu sér stað þegar stúlkan var með for­eldrum sínum og vin­konu í tjald­úti­leigu um verslunar­manna­helgina árið 2013. Vin­konurnar höfðu hitt þar fjóra til fimm stráka og farið með þeim í tjald á svæðinu, tvo daga í röð. Strákarnir voru að drekka en stúlkurnar ekki, en kváðu strákana hafa gefið sér sopa af bjór.

„Þú veist að ég vil þetta ekki“

Stúlkan sagði að þegar liðið hafi á kvöldið hafi pilturinn byrjað að kyssa sig og á sama tíma sett síma hennar inn á sig og sagt honum að sækja hann. Þau hafi síðan farið inn í annað her­bergi tjaldsins þar sem hann hafi látið hana hafa við sig munn­mök og stungið fingri inn í leg­göng hennar. Hún kvaðst hafa frosið og sagt „þú veist að ég vil þetta ekki“ en hefði ekkert getað gert. Hann hafi ætlað að halda á­fram og verið að leita að smokk þegar móðir hennar hringdi og hún þá náð að hlaupa út.

Á­kærði gaf skýrslu í ágúst 2018. Hann sagði þau tvö hafa verið að reyna hvort við annað og kyssast, sem hafi leitt til munn­maka. Hann sagðist hafa haldið að stúlkan væri ári yngri en hann en rankað við sér og hætt þegar fé­lagar hans hafi kallað inn í tjaldið að hún væri „99-módel“ og „þú manst hversu ung hún er“. Pilturinn tók í­trekað fram að hafa ekki vitað aldur stúlkunnar, og nefndi að honum hefði þótt hún full­orðins­leg og þroskuð líkam­lega, eins og hún væri komin í mennta­skóla.

Kippti sér lítið upp við köll frá fé­lögunum

Stúlkan var 13 ára og tíu mánaða á tíma­bilinu en piltinum vantaði fjóra mánuði í 17 ára aldur, og því hátt í þriggja ára aldurs­munur á þeim. Stúlkan kvaðst full­viss um að pilturinn hefði vitað aldur hennar og að þær væru þarna með for­eldrum sínum. Hana rámaði í að ein­hver hefði kallað inn til þeirra að hann ætti að vita hvað hún væri gömul, en sagði að af við­brögðum hafi hún talið að hann hefði vitað þetta frekar en að vera hissa, og haldið kyn­mökunum eitt­hvað á­fram eftir þetta.

Dómurinn taldi fram­burð stúlkunnar trú­verðugan og sak­felldi piltinn, en á­kvörðun refsingar var frestað og fellur niður að tveimur árum liðnum. Til refsimildunar var annars vegar litið til ungs aldurs á­kærða og hins vegar til þess langa tíma sem liðinn er.

Piltinum var að auki gert að greiða stúlkunni 400 þúsund krónur í miska­bætur, 1,2 milljónir til skipaðs verjanda síns og 500 þúsund krónur í þóknun réttar­gæslu­manns stúlkunnar.