Maður hlaut í gær þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir þjófnaðarhrinu sem átti sér stað aðfaranótt þriðjudagsins tíunda september árið 2019.

Maðurinn var ákærður fyrir að brjótast inn í íbúðarhús í Reykjavík og stela þaðan Macbook-fartölvu, Iphone 10, lykli að Ford Explorer, fimm greiðslukortum frá Arion banka og Íslandsbanka, ökuskírteini, og svokölluðu „læknakorti“. Allir þessir munir voru í eigu sama mannsins.

Auk þess var maðurinn ákærður fyrir að hafa síðar sömu nótt stolið samtals 120.600 krónum úr hraðbönkum. Fyrst í hraðbanka Landsbankans við N1 á Ártúnshöfða, síðan í hraðbanka Arion banka í Bíldshöfða, og að lokum í hraðbanka Íslandsbanka í Höfðabakka.

Maðurinn játaði brot sín og þótti játning hans sanna sekt hans. Fram kemur að við ákvörðun refsingar hans hafi verið tekið tillit til þess að hann hafi játað sök og sé búinn að „taka á sínum málum, iðrist gjörða sinna og sé búinn að snúa lífi sínu til betri vegar.“