Héraðs­dómur Reykja­víkur hefur dæmt karl­mann í 30 daga skil­orðs­bundið fangelsi fyrir kyn­ferðis­lega á­reitni. Maðurinn var á­kærður fyrir að hafa, að­fara­nótt 18. júní 2019, slegið utan­klæða á rass kven­kyns dyra­varðar fyrir utan skemmti­stað í mið­borg Reykja­víkur og reynt að kyssa hana á kinnina.

Konan sem varð fyrir á­reitinu krafðist þess að fá eina milljón króna í miska- og skaða­bætur en á­kærði krafðist sýknu eða vægustu refsingar er lög leyfa.

Skýrsla tekin ári seinna

Kæra í málinu var lögð frá 10. júlí 2019 og lýsti konan því hjá lög­reglu að hún hafi verið við dyra­vörslu þegar um­ræddur maður á­reitti hana með því að rass­skella hana einu sinni með föstu höggi.

„Kvaðst brota­þoli hafa verið niður­lægð með þessu og hafi beðið dyra­verði um að vísa á­kærða út af staðnum. Þegar hann hafi verið á leið út hafi hann reynt að kyssa hana á kinnina en hún hafi náð að víkja sér undan,“ segir í dómi héraðs­dóms.

Maðurinn sem á­kærður var kvaðst ekki muna hvernig at­vikum hefði verið háttað um­rætt kvöld, en hann sagðist þó þekkja konuna og hefðu þau átt í kyn­ferðis­legum sam­skiptum eitt sinn. Þá hefðu sam­skipti þeirra verið á vina­legum nótum og hann venju­lega gefið sig á tal við hana þegar hann sótti staðinn. Ekki var tekin skýrsla af manninum fyrr en tæpu ári eftir að kæran var lögð fram.

Ekki „perra­skapur“

Maðurinn sagðist fyrir dómi ekki telja sig hafa á­reitt konuna eins og honum var gefið að sök. Hann taldi þó ekki ó­lík­legt, hafi hann snert konuna, að hann hafi ætlað að klappa á bak hennar en ekki rass­skella. Til­gangurinn hafi verið vin­sam­legur en ekki ein­hver „perra­skapur“ eins og það var orðað.

Upp­lifun konunnar var þó aftur á móti önnur og sagði hún höggið hafa verið þéttings­fast og hún kippst við. Henni hafi fundist hátt­semin ömur­lega niður­lægjandi og og það tekið hana nokkrar mínútur að ná áttum. Taldi hún það hafa verið ætlun mannsins að rass­skella hana og niður­lægja.

150 þúsund krónur í bætur

Fram­burður vitna, þar á meðal annarra dyra­varða á staðnum, studdi fram­burð konunnar og var maðurinn því sak­felldur fyrir að slá konuna á rassinn. Hann var aftur á móti sýknaður af á­kæru um til­raun til að kyssa hana á kinnina.

Fangelsis­dómurinn yfir manninum er skil­orðs­bundinn til tveggja ára. Þá var honum gert að greiða konunni 150 þúsund krónur, 760 þúsund krónur í máls­varnar­laun verjanda síns, 450 þúsund króna þóknun réttar­gæslu­manns konunnar og rúmar 60 þúsund krónur í annan sakar­kostnað.