Maður hlaut í síðustu viku fjögurra ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að ráðast á eiginkonu sína, nauðga henni, og síðan þrjár líkamsárásir á einni nóttu, sem og önnur brot.

Ákæruliðirnir í málinu voru fimm talsins og var hann sakfelldur í þeim öllum. Hann játaði einungis sök í einu þeirra, en það var umferðarlagabrot. Fyrstu þrír ákæruliðirnir vörðuðu brot gegn eiginkonu mannsins í mars, apríl og maí á þessu ári.

Sat fyrir henni til að sjá síma

Maðurinn var til að mynda sakfelldur fyrir að beita eiginkonu sína ofbeldi og ólögmætri nauðung í bíl með því að þrýsta henni upp að bílhurðinni, tosa í kjól hennar, klóra hana á bringuna og taka af henni farsíma.

Atvikið átti sér stað þegar þau voru að standa í skilnaði og hafði hann setið fyrir konunni fyrir utan vinnustaðinn hennar og vildi fá að sjá farsíma hennar. Í lögregluskýrslu sagði hún að hann væri mjög afbrýðisamur.

Hótaði með hníf og nauðgaði

Þá var maðurinn sakfelldur fyrir að nauðga eiginkonu sinni. Í ákæru segir að hann hafi ógnað henni með hníf, sest yfir hana og lagt sætið aftur, skipað henni að klæða sig úr að neðan, hótað að setja fíkniefni upp í leggöngin á henni og skera úr henni augun. Auk þess sem hann hótaði að skaða sjálfan sig og hafði svo við hana samræði.

Fram kemur að vitni komu að konunni sem var þá hrædd og kjökrandi á meðan maðurinn stóð yfir henni öskrandi. Hún bað þau að hringja í lögregluna á meðan maðurinn var vopnaður hníf og sagði einu vitninu að maðurinn hefði nauðgað sér og tekið símann sinn.

Fyrir dómi sagði hún að þau hefðu verið í bílnum á sama stað í um það bil tvær klukkustundir og á meðan hafi hún óttast um líf sitt.

Blóðug slagsmál í þvottahúsi

Maðurinn var jafnframt ákærður fyrir líkamsárásir gagnvart þremur mönnum. Þær áttu sér stað í apríl á þessu ári í þvottahúsi í fjölbýlishúsi þar sem þeir bjuggu allir. Lögreglu var skömmu fyrir miðnætti umrætt kvöld tilkynnt um blóðug slagsmál. Þegar hana bar að garði sá hún að maðurinn var „augljóslega undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.“

Honum var í ákæru gefið að sök að slá einn mannanna ítrekað í höfuð, og annan með krepptum hnefa í andlit. Síðan hafi hann slegið þann þriðja í höfuð og kastað slökkvitæki í áttina að honum og bitið hann í bakið. Allir hlutu þeir áverka.

Maðurinn vildi meina að mennirnir hefðu allir ráðist á sig, en framburður hans þótti ekki trúverðugur. Hins vegar þóttu lýsingar mannana geta samrýmst áverkum þeirra.

Líkt og áðir segir hlaut maðurinn fjögurra ára fangelsisdóm og er gert að greiða konunni tvær og hálfa milljón króna. Auk þess þarf hann að greiða annan sakarkostnað málsins, en hann nemur rúmlega sjö milljónum.