Hall­dór Anton Jóhannes­son, Dagur Kjartans­son og Brynjar Stein­gríms­son voru dæmdir í sex til sjö ára fangelsi í Héraðs­dómi Reykja­víkur í morgun fyrir stór­fellt fíkni­efna­laga­brot. Þetta stað­festir lög­maður eins þeirra í sam­tali við Frétta­blaðið.

Mennirnir eru allir rúm­lega tví­tugir, fæddir árið 1996 og 1998. Þeir voru hand­teknir á Kefla­víkur­flug­velli í maí á síðasta ári en lög­reglan lagði hald á 16,2 kíló af kókaíní í þeirra vörslu. Aldrei hefur verið lagt hald á meira magn af efninu í einu lagi en sölu­virði gæti verið um hálfur milljarður króna.

Brynjar var dæmdur í sjö ára fangelsi, Hall­dór Anton í sex og hálfs árs fangelsi og Dagur í sex ára fangelsi. Þeir neituðu sök við þing­festingu málsins í Héraðs­dómi í septem­ber síðast­liðnum.

Sam­­kvæmt á­kæru flugu mennirnir tveir frá Kefla­­vík til Frankfurt í maí síðast­liðnum, þaðan sem þeir tóku lest til Amsterdam. Degi síðar hafi þeir hitt tvo ó­­þekkta aðila og tekið á móti tveimur ferða­­töskum sem inni­­héldu um 8,4 kíló af kókaíni, hvor um sig. Þeir eru sagðir hafa fylgt fyrir­­­mælum þriðja mannsins og „ó­­þekkts aðila“.

Mennirnir þrír voru einnig á­kærðir fyrir smærri brot, meðal annars fyrir að hafa haft litla skammta af fíkni­efnum í fórum sínum. Þá er einn þeirra á­kærður fyrir peninga­þvætti, en í á­kæru segir að hann hafi „um nokkurt skeið aflað sér á­vinnings af refsi­verðum brotum að fjár­hæð 3.100.000“ en sá á­kæru­liður er ekki út­­skýrður frekar.