Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag Pálma Snæ Magnússon og Jónas Val Jónasson til 15 og 22 mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa staðið saman að innflutningi á tæpu kílói af kókaíni. Efnið var falið í fjórum niðursuðudósum sem komu til landsins með hraðsendingu frá Belgíu föstudaginn 2. febrúar 2018. Kókaínið hafði að meðaltali 74% styrkleika, sem samsvarar 83% af kókaínklóríði ætluðu til sölu og dreifingar í ágóðaskyni.

Segir í dómnum að Pálmi Snær hafi tekið að sér, að beiðni Jónasar, að taka við sendingunni á þáverandi heimili sínu að Flúðaseli 85 í Breiðholti, og afhenda Jónasi en hann var handtekinn á leiðinni með sendinguna heim til Jónasar.

Ákæra lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu frá 26. ágúst á hendur Jónasi Val varðar þjófnaðarbrot, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Jónas játaði öll brotin. 

Jónas Valur á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2002 m.a. vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, fyrir líkamsárás og þjófnaðarbrot en hann játaði að hafa stolið byggingarefnum frá Agli Árnasyni ehf. að verðmæti tæpra tveggja milljóna króna.

Ákærðu skulu greiða sameiginlega 1.456.036 krónur í sakarkostnað auk þess skal Jónas Valur greiða 87.357 krónur í annan sakarkostnað.