Kínverska blaðakonan, Zhang Zhan var dæmd í fjögurra ára fangelsi í morgun fyrir fréttaflutning sinn af þróun kórónuveirufaraldursins í Wuhan í Kína, í byrjun árs.

Er hún sökuð um að hafa efnt til illinda og valdið vandræðum með fréttaflutningi sínum í upphafi árs. Reuters greinir frá.

Fréttum Zhang af yfirfullum sjúkrahúsum og líkbrennslustöðvum vegna nýrrar farsóttar var deilt víða á samfélagsmiðlum í febrúar en hún birti þær meðal annars á Wechat, Twitter og Youtube en tvö síðastnefndu eru lokuð í Kína. Fréttirnar fóru heldur ekki framhjá yfirvöldum í Kína, sem þegar hafa dæmt átta manns til refsingar fyrir að leka upplýsingum um veiruna.

Fréttaflutningur hennar stöðvaðist skyndilega um miðjan maí en síðar kom í ljós að hún hafði verið í haldi lögreglu og flutt til Shanghai, meira en 640 kílómetra fjarlægð frá heimili sínu. Zhang sem er 37 ára gömul hefur verið í hungurverkfalli síðan í júní. Að sögn lögmanns hennar, Ren Quanniu, er hún við bága heilsu en fangelsisyfirvöld hafa þvingað fljótandi næringu ofan í Zhang í gegn um slöngu sem liggur um nef hennar.

Zhang er fyrstu blaðamaðurinn sem hlýtur dóm fyrir fréttaflutning sinn af faraldrinum en sem fyrr segir hafa kínversk yfirvöld refsað átta uppljóstrum fyrir að leka upplýsingum um faraldurinn. Þrír aðrir blaðamenn sem fluttu fréttir af faraldrinum frá Wuhan í byrjun árs hefur verið saknað síðan í febrúar, þau Chen Qiushi, Fang Bin og Li Zehua.