Fyrrverandi formaður húsfélags við Efstasund í Reykjavík var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða húsfélaginu tæplega 2,9 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum vegna ólögmætrar meðferðar á fjármunum félagsins.

Konan var um skeið formaður húsfélagins og hafði ein prókúru og aðgang að reikningum þess frá janúar 2017 til maí 2019. Daginn sem konan tók við sem formaður var haldinn húsfundur og átti þá hún eina íbúð í húsinu. Síðar keypti hún keypt konan þar þrjár íbúðir til viðbótar. Stuttu eftir að hún tók við formennsku sagði hún upp þjónustusamningi við fyrirtæki sem annast hafði um fjármál húsfélagsins.

Hækkun húsgjalds

Að hennar frumkvæði voru húsfélagsgjöld fljótlega hækkuð úr 9 þúsund krónum í 14 þúsund fyrir hverja íbúð. Hækkunin var samþykkt af þremur íbúðareigendum í húsinu auk konunnar sjálfrar en ekki boðað til húsfundar vegna hækkunarinnar.

Laun greidd í leyfisleysi

Húsfélagið taldi konuna hafi misfarið með fjármuni félagsins eftir að hún var ein komin með aðgang að reikningum þess og sótti ekki umboð húsfunda fyrir ýmsum greiðslum. Hún hafi greitt sér laun í leyfisleysi og millifært fjármuni þaðan yfir á sinn eigin reikning án eðlilegra skýringa.

Tók út pening með ólögmætum hætti

Húsfélagið kærði konuna m.a. fyrir að frá 7. september 2017 til og með 7. maí 2019 þegar konan var formaður, hafi hún með ásetningi og á ólögmætan hátt tekið út af reikningum húsfélagsins rúmlega þrjár milljónir króna og nýtt í eigin þarfir og annarra og stofnað til skuldbindinga sem hún hafði ekki umboð til.

Konan var að auki dæmd til að greiði húsfélaginu 950 þúsund krónur í málskostnað. Dómurinn birtist á vef dómstólanna hér.