Kona var í dag dæmd í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot í nánu sambandi og fíkniefnalagabrot. Ákæran á hendur konunni var í þremur ákæruliðum, en ákæruvaldið afturkallaði einn þeirra.

Fyrsti ákæruliðurinn varðaði fíkniefnalagabrot, en henni var gefið að sök að hafa í vörslu sinni 781,65 grömm af kannabisplöntum, 34,95 grömm af kannabislaufum og 16,27 grömm af marijúana í vörslum sínum. Auk þess að hafa ræktað umræddar plöntur á heimili sínu.

Ákæra um árás með tjaldhæl felld niður

Annar ákæruliðurinn varðaði brot í nánu sambandi og fíkniefnalagabrot. Konan var dæmd fyrir að veitast með ofbeldi gagnvart þáverandi kærasta sínum með því að slá hann í höfuðið með glerflösku á heimili sínu. Það varð til þess að maðurinn hlaut yfirborðsáverka og skurði í andliti.

Fram kemur að við öryggisleit hafi lögregla fundið 0,19 grömm af marijúana sem konan hafði í úlpuvasa sínum.

Í þriðja ákæruliðnum var konunni gefið að sök að hafa ráðist á sama kærasta sinn á heimili sínu með því að slá hann ítrekað í höfuðið með tjaldhæl. Við það átti kærastinn að hljóta yfirborðsáverka í andliti og vinstri öxl. Sá ákæruliður var látinn niður falla af ákæruvaldinu.

Ekki krafist upptöku á tveimur tíundu hlutum úr grammi

Konan játaði sök og þótti játning hennar og önnur gögn málsins nægja sem sönnun fyrir háttsemina sem henni ver gefið að sök.

Líkt og áður segir hlaut konan þriggja mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var henni gert að sæta upptöku á fíkniefnunum í fyrsta ákæruliðnum, sem og 23 stykkjum af fræjum af óþekktri tegund, þremur stykkjum af rauðum töflum af óþekktri tegund, átta stykkjum af bláum  lyfjabelgjum af óþekktri tegund, auk muna sem hún er sögð hafa notuð við ræktun fíkniefna.

Þess má þó geta að svo virðist sem ekki hafi verið krafist upptöku á 0,19 grömmunum af marijúana sem minnst var á í öðrum ákæruliðnum.