Dacia gengur nú í gegnum endurskipulagningu eins og mörg önnur bílamerki, vegna tilkomu rafdrifinna ökutækja. Dacia hefur endurhannað merki bíla sinna og mun innleiða einföldun á hönnun og framleiðslu bíla í nýrri fimm ára áætlun. Renault-Nissan samsteypan mun setja Dacia og Lada merkin undir einn hatt þannig að bílar merkjanna munu verða þróaðir saman og nota mikið af sömu íhlutum. Mun það þó fara eftir markaðssvæðum hvaða merki er í boði og því ólíklegt að við sjáum Lada aftur á Íslandi.

Nýtt merki Dacia er með ákveðnum línum í bókstöfum í stað skjaldarmerkis eins og áður.

Dacia frumsýndi nýlega tilraunaútgáfu af nýjum jepplingi af stærri gerðinni sem kallast Bigster og er fyrir ofan Duster í stærð. Bigster er einn af þremur nýjum bílum sem Dacia mun kynna fyrir 2025. Bigster er 4.600 mm að lengd og nokkuð kassalaga eins og aðrir Dacia-bílar. Að sögn Dacia á hann að keppa við bíla í verði sem eru í stærðarflokkinum fyrir neðan hann. Sjá má nýtt útlit með Y-laga framljósum ásamt endurhönnuðu grilli. Yfirbygging tilraunaútgáfunnar er úr endurunnu plasti en bíllinn er byggður á CMF-B undirvagni Renault, og verður undirvagninn notaður fyrir alls ellefu bíla Dacia og Lada. Það þýðir að hann getur notað tvinnútfærslur eins og 1,6 lítra e-Tech vélina sem er í nýjum Clio.

Bílar Dacia verða líkt og bílar Renault búnir Safety Drive sem þýðir að hámarkshraði þeirra verður bundinn við 180 km á klukkustund. Búnaðurinn safnar meðal annars upplýsingum gegnum skynjara í bílnum og bendir ökumanni á hættur í kring og kemur með ráðleggingar um öruggari akstur.