Að sögn Elon Musk, forstjóra Tesla, mun fjöldaframleiðsla hefjast á Cybertruck pallbílnum árið 2023. Áður hafði verið sagt að bíllinn kæmi ekki í sölu fyrr en seint á næsta ári en líklegt er talið að framleiðsla geti hafist á honum seint á næsta ári.

Þessar fréttir komu í kjölfar hluthafafundar Tesla en þar var einnig tilkynnt að Tesla Semi flutningabíllinn og Tesla Roadster sportbíllinn færu einnig í framleiðslu árið 2023.

Musk tilkynnti einnig að höfuðstöðvar Tesla myndu flytja frá Kaliforníu til Austin í Texas á næstunni. Að sögn Musk hefur árið í ár einkennst af skorti á íhlutum, og þá ekki aðeins tölvukubbum.

„Mjög líklegt er að við sjáum framleiðslu á Cybertruck hefjast í lok árins 2022. Vonandi getum við einnig hafið framleiðslu á Semi og Roadster árið 2023 líka, og verðum laus við skort á íhlutum árið 2023, en ég er vongóður um það,“ sagði Musk við þetta tækifæri.

Þessar fréttir munu ekki hafa áhrif á evrópska markaðinn þar sem ólíklegt er talið að Cybertruck fari á markað þar. Er það vegna strangra Evrópureglna um öryggi fótgangandi farþega, en Cyber­truck þykir ekki góðu í því tilliti.

Hvað það þýðir fyrir þá sem pantað hafa Cybertruck í Evrópu og á Íslandi á þó eftir að koma í ljós en alls hefur meira en hálf milljón eintaka verið pöntuð af bílnum.

Áætlað er að hann verði framleiddur í 250-300.000 eintökum á ári svo að taka mun tíma að sinna þeim biðlista. Að sögn Musk er þó verið að íhuga að koma með minni útgáfu Cyber­truck á markað sem yrði seldur utan Bandaríkjanna.

Fyrir Evrópumarkað Tesla eru það eflaust góðar fréttir að fyrstu bílarnir munu rúlla út af færibandinu í nýrri verksmiðju Tesla í Berlín í nóvember eða desember.

Lét Elon Musk hafa það eftir sér á hátíð sem haldin var í verksmiðjunni um síðustu helgi.

„Það að byrja framleiðslu er auðveldi hlutinn, en að ná fjöldaframleiðslu er sá erfiði.“

Hann áætlar að verksmiðjan geti framleitt 5-10.000 bíla á viku og meðal þeirra verði einnig Semi flutningabíllinn, en hann verður einnig framleiddur í Berlín.