Curiosity, könnunarfar NASA, hefur fundið kolefnistegund í nokkrum sýnum af yfirborði Mars sem gæti bent til þess að líffræðileg ferli hafi átt sér stað á plánetunni rauðu. Uppgötvunin bendir þó ekki endilega til þess að líf hafi verið á Mars til forna.
Vísindafólk hefur enn ekki fundið óyggjandi merki þess að líf sé eða hafi verið til á Mars. Til dæmis hafa ekki fundist ummerki um fornbakteríur í setlögum og lífrænar sameindir eru ekki jafn fjölbreyttar og við væri að búast ef líf væri á plánetunni.
Kolefni finnst í öllum lífverum og þessi tiltekna kolefnistegund sem fannst á Mars, kolefni-12, er yfirleitt talin vera merki um lífræna ferla. Tekin voru 24 sýni af fjölbreyttum svæðum á yfirborði Mars og tæplega helmingur sýnanna innihélt þessa tegund í miklum mæli.

Paul Mahaffy, sem stýrði þar til nýlega efnafræðirannsóknum um borð í Curiosity, segir það mjög merkilegt að þessi kolefnistegund hafi fundist í þessum mæli á plánetunni. „En við þyrftum vissulega meiri sönnunargögn til að segja að við séum búin að uppgötva líf,“ segir Mahaffy í frétt á vefsíðu NASA.
Þrjár útskýringar komi til greina
Rannsakendur birtu niðurstöður sínar í vísindaritinu PNAS í dag og gefa þar nokkrar mögulegar útskýringar á uppgötvuninni. Þrátt fyrir að á jörðinni hefði uppgötvun þessara kolefna gefið sterklega til kynna að um fornt líf væri að ræða þá eru pláneturnar svo mismunandi að það er óráðlegt að bera þær of mikið saman.
„Það erfiðasta er að sleppa jörðinni og sleppa þeirri hlutdrægni sem við erum með og virkilega reyna að notast við grundvallaratriði efnafræðinnar, eðlisfræðinnar og umhverfisferlana á Mars,“ segir geimlíffræðingurinn Jennifer L. Eiginbrode, ein vísindamannanna sem tók þátt í kolefnisrannsókninni.
Rannsakendur leggja fram þrjár tilgátur sem þeim þykja vera jafn líklegar. Ein þeirra er líffræðileg og miðar við að fornbakteríur hafi búið á yfirborði plánetunnar. Hinar tvær skýringarnar eru ekki líffræðilegs eðlis.

Önnur tilgátan er að kolefnið hafi orðið til þegar útfjólublá ljós komust í snertingu við koltvísýring í andrúmslofti Mars. Hin tilgátan er að kolefnið hafi mögulega orðið eftir á yfirborði Mars eftir að sólkerfið ferðaðist í gegnum risastórt sameindarský sem innihélt þessa kolefnistegund í miklum mæli fyrir hundruð milljónum ára síðan.
„Allar þrjár útskýringarnar passa við gögnin,“ segir Christopher House, sérfræðingur í Curiosity sem leiddi rannsóknina. „Við þurfum einfaldlega meiri gögn til að útiloka eða samþykkja þær.“
Curiosity mun halda áfram að safna og mæla sýni á mismunandi svæðum á Mars. Könnunarfarið lenti fyrst á Mars árið 2012 og er fyrsta sinnar tegundar sem getur mælt kolefnissamsætur á yfirborði plánetunnar.
Könnunarfarið Perseverance lenti á rauðu plánetunni árið 2020 og safnar nú sýnum. Mögulega mun farið að endingu snúa til jarðarinnar aftur með sýnin.