Curiosity, könnunar­far NASA, hefur fundið kol­efnis­tegund í nokkrum sýnum af yfir­borði Mars sem gæti bent til þess að líf­fræði­leg ferli hafi átt sér stað á plánetunni rauðu. Upp­götvunin bendir þó ekki endi­lega til þess að líf hafi verið á Mars til forna.

Vísinda­fólk hefur enn ekki fundið ó­yggjandi merki þess að líf sé eða hafi verið til á Mars. Til dæmis hafa ekki fundist um­merki um forn­bakteríur í set­lögum og líf­rænar sam­eindir eru ekki jafn fjöl­breyttar og við væri að búast ef líf væri á plánetunni.

Kol­efni finnst í öllum líf­verum og þessi til­tekna kol­efnis­tegund sem fannst á Mars, kol­efni-12, er yfir­leitt talin vera merki um líf­ræna ferla. Tekin voru 24 sýni af fjöl­breyttum svæðum á yfir­borði Mars og tæp­lega helmingur sýnanna inni­hélt þessa tegund í miklum mæli.

Mynd frá Mars, tekin af könnunarfari Curiosity.
Mynd/NASA

Paul Mahaf­fy, sem stýrði þar til ný­lega efna­fræði­rann­sóknum um borð í Curiosity, segir það mjög merki­legt að þessi kol­efnis­tegund hafi fundist í þessum mæli á plánetunni. „En við þyrftum vissu­lega meiri sönnunar­gögn til að segja að við séum búin að upp­götva líf,“ segir Mahaf­fy í frétt á vef­síðu NASA.

Þrjár útskýringar komi til greina


Rann­sak­endur birtu niður­stöður sínar í vísinda­ritinu PNAS í dag og gefa þar nokkrar mögu­legar út­skýringar á upp­götvuninni. Þrátt fyrir að á jörðinni hefði upp­götvun þessara kol­efna gefið sterk­lega til kynna að um fornt líf væri að ræða þá eru pláneturnar svo mis­munandi að það er ó­ráð­legt að bera þær of mikið saman.

„Það erfiðasta er að sleppa jörðinni og sleppa þeirri hlut­drægni sem við erum með og virki­lega reyna að notast við grund­vallar­at­riði efna­fræðinnar, eðlis­fræðinnar og um­hverfis­ferlana á Mars,“ segir geim­líf­fræðingurinn Jenni­fer L. Eigin­brode, ein vísinda­mannanna sem tók þátt í kol­efnis­rann­sókninni.

Rann­sak­endur leggja fram þrjár til­gátur sem þeim þykja vera jafn lík­legar. Ein þeirra er líf­fræði­leg og miðar við að forn­bakteríur hafi búið á yfir­borði plánetunnar. Hinar tvær skýringarnar eru ekki líf­fræði­legs eðlis.

Mynd tekin af könnunarfarinu Perseverance. Í fjarska fyrir miðbik myndarinnar má sjá þyrluna Ingenuity.
Mynd/NASA

Önnur til­gátan er að kol­efnið hafi orðið til þegar út­fjólu­blá ljós komust í snertingu við kol­tví­sýring í and­rúms­lofti Mars. Hin til­gátan er að kol­efnið hafi mögu­lega orðið eftir á yfir­borði Mars eftir að sól­kerfið ferðaðist í gegnum risa­stórt sam­eindar­ský sem inni­hélt þessa kol­efnis­tegund í miklum mæli fyrir hundruð milljónum ára síðan.

„Allar þrjár út­skýringarnar passa við gögnin,“ segir Christop­her Hou­se, sér­fræðingur í Curiosity sem leiddi rann­sóknina. „Við þurfum ein­fald­lega meiri gögn til að úti­loka eða sam­þykkja þær.“

Curiosity mun halda á­fram að safna og mæla sýni á mis­munandi svæðum á Mars. Könnunar­farið lenti fyrst á Mars árið 2012 og er fyrsta sinnar tegundar sem getur mælt kol­efnis­sam­sætur á yfir­borði plánetunnar.

Könnunar­farið Per­se­verance lenti á rauðu plánetunni árið 2020 og safnar nú sýnum. Mögu­lega mun farið að endingu snúa til jarðarinnar aftur með sýnin.